Ástandið í Palestínu

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 15:46:46 (6961)

2002-04-04 15:46:46# 127. lþ. 110.95 fundur 461#B ástandið í Palestínu# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 127. lþ.

[15:46]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Sverris Hermannssonar sem sagði í upphafi máls síns að í þessu máli fyndi maður til vanmáttar því að undanfarna mánuði hefur maður fylgst með fréttum fjölmiðla og séð hvernig átökin hafa vaxið og ofbeldið orðið grimmara. Fólk er sótt heim í híbýli sín og skotið þar varnarlaust og enginn greinarmunur gerður á því hvort þar eigi palestínskir hermenn í hlut eða saklausir borgarar.

Herra forseti. Þetta ástand hefur fengið að þróast og ríkir vegna þess að í gildi er alveg sérstakt bandalag Bandaríkjanna og Ísraels og það er ein helsta ógnunin við heimsfriðinn í dag. Hinar skefjalausu árásir Ísraela á Palestínu og markvissar árásir á saklaust fólk um margra mánaða skeið hafa notið til fulls stuðnings Bandaríkjaforseta og Bandaríkjastjórnar, sem hefur beitt sér fyrir því með atkvæði Bandaríkjanna í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna að neita inngripi í deilurnar, hefur notað neitunarvald í nær öllum tillögum um einhverjar aðgerðir til að koma á friði í þessum heimshluta, tillögum sem bornar hafa verið upp í öryggisráðinu og hafa lotið að þessum málum. Þrátt fyrir að þær fáu bókanir sem samþykktar hafa verið hjá Sameinuðu þjóðunum hafi verið vægar fyrir Ísraelsmenn hefur þeim ekki dottið í hug að fara eftir þeim. Þetta sérstaka bandalag Ísraels- og Bandaríkjamanna hefur villt þeim svo sýn að þeir trúa að siðferði nái ekki lengur til þeirra.