Ástandið í Palestínu

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 15:49:02 (6962)

2002-04-04 15:49:02# 127. lþ. 110.95 fundur 461#B ástandið í Palestínu# (umræður utan dagskrár), MS
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 127. lþ.

[15:49]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Skelfilegir og hörmulegir atburðir eiga sér stað í deilu Ísraelsmanna og Palestínumanna og þar ganga deiluaðilar fram með ofbeldi og blóðsúthellingum hvor í annars garð, og ástandið fer dagversnandi. Þar verða óbreyttir borgarar síaukið fyrir barðinu á þessum deilum. Harkaleg framganga Ísraelsmanna hefur kallað fram sífellt meiri gagnrýni frá heimsbyggðinni, og einnig er ljóst að óeining innan raða Ísraelsmanna fer vaxandi. Friðelskandi fólk í Ísrael hefur áttað sig á því að harka og óbilgirni knúin fram með slíku ofbeldi sé ekki leið til friðar.

Ehud Barak, fyrrverandi forsætisráðherra Ísraels, hefur sagt að Ísraelar hafi glatað siðferðilegum yfirburðum sínum. Orðrétt hefur hann sagt, með leyfi forseta: ,,Við höfum glatað siðferðilegum yfirburðum okkar á þeim tíma sem átökin við Palestínumenn hafa staðið yfir.``

Þetta eru orð að sönnu enda sýnir umræðan í heiminum að þetta er líklega rétt hjá Ehud Barak. En það er alvarlegt að Ísraelsmenn virða að vettugi þann þrýsting sem alþjóðasamfélagið hefur beitt þá, og það er auðvitað alvarlegt að Ísraelsmenn virða ekki heldur vilja öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Nú má segja að fokið hafi í flest skjól hjá Ísraelsmönnum og það hlýtur að styttast í að alþjóðasamfélagið fari að beita beinum aðgerðum til að setja niður þessar deilur. Það er ljóst, herra forseti, að í því tilfelli og í því máli leika Bandaríkjamenn lykilhlutverkið og við hljótum að fara að gera auknar kröfur til þess að Bandaríkjamenn beiti valdi sínu til að setja niður þær deilur sem þarna eiga sér stað.