Ástandið í Palestínu

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 15:51:03 (6963)

2002-04-04 15:51:03# 127. lþ. 110.95 fundur 461#B ástandið í Palestínu# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 127. lþ.

[15:51]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Það eru átakanlegir atburðir sem berast okkur heim í stofu hvern einasta dag. Palestínska þjóðin hefur lengi verið í herkví en nú er hún beitt miklu ofbeldi og hörku, og sjálfstæð Palestína virðist langt undan. Ég tek undir með hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur, tafarlaust á að halda fund í utanrmn. Alþingi á að álykta og senda frá sér yfirlýsingu.

Herra forseti. Ég hef verið sátt við afstöðu utanrrh. og þau orð sem hafa verið eftir honum höfð. En ég spyr: Hafa íslensk stjórnvöld sent frá sér álit sitt? Hafa yfirlýsingar borist til ísraelskra stjórnvalda? Hvernig ætlar Ísland að þrýsta á Ísrael? Við erum yfirlýst vinaþjóð og það skiptir máli að mótmæli komi héðan. Það hefur áhrif.

Við erum smá þjóð en sterk. Ég hlýt að spyrja hvort Ísland geti beitt sér fyrir alþjóðlegum aðgerðum til að knýja Ísrael til að draga tafarlaust hersveitir sínar frá herteknu svæðunum. Ef það á að vera unnt verða íslensk stjórnvöld og Alþingi að beita sér.

Herra forseti. Í leiðara Washington Post í fyrradag var fjallað um þessi mál mjög afdráttarlaust. Þar var sagt að það væri einn maður í heiminum sem hefði vald til að leysa þessa deilu og hann heitir Bush. En hann þarf að heyra líka í frjálsum þjóðum, vinaþjóðum eins og okkar. Þannig eigum við að fara fram og þess vegna spyr ég hæstv. utanrrh.: Hvert hafa yfirlýsingar hans borist? Hvert hefur hann sent frá sér annað en í íslenska fjölmiðla þau orð sem frá honum hafa farið og sem ég hef tekið undir?