Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 16:02:22 (6968)

2002-04-04 16:02:22# 127. lþ. 110.2 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, SvH
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 127. lþ.

[16:02]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Hér hafa hv. þm. þæft um langa hríð frv. til laga um virkjun Jökulsár á Brú o.s.frv. Frv. snýst um að Landsvirkjun verði heimilað að virkja þetta mikla vatnsfall.

Í athugasemdum með frv. kemur fram forsendan fyrir þessari virkjun og forsendan er sú að rísi álver við Reyðarfjörð á vegum Norsk Aluminum, Reyðaráls og annarra þeirra sem tilgreindir eru sérstaklega. Hvernig sem á málið er litið, þá er þessi forsenda brostin með öllu. Og það er óþinglegt að halda fram frv. eins og þessu eftir að það hefur átt sér stað. Ef hæstv. ríkisstjórn hefði viljað fá sér þetta virkjunarleyfi bar henni skylda til þess samkvæmt þingvenjum að bera fram nýtt frv. reist á öðrum forsendum og þá þeim sem þeir halda fram, að von sé til að ná samningum um stóriðjuver sem yrði kaupandi að þeirri orku.

Ég ætla að fara fáum orðum um þetta mál nú og hef ekki nennu til þess að elta ólar við allt sem fram hefur komið hér af hálfu stjórnvalda, en ég verð að játa að mér sýnist vinnubrögð þeirra óhöndugleg þótt ég sleppi allri umræðu um ranga málsmeðferð eins og hér hefur verið mjög rædd og undir lögð í meira lagi. Og eins og mönnum liggur orð til þessa máls held ég þó a.m.k. að mörgu kunni að vera ólogið í framhaldinu, þó ekki sé meira sagt.

Það er auðvitað virðingarleysi við Alþingi sem kemur fram í málsmeðferðinni. Á því er ekki nokkur minnsti vafi. Það er svo sem ekki ný bóla. Hæstv. ríkisstjórn hefur margsinnis sýnt virðingarleysis- og tillitsleysisafstöðu til hins háa Alþingis, löggjafarsamkundunnar, þess aðila sem þó hæstv. ríkisstjórn þiggur frá umboð sitt. Ekki nóg með það heldur hefur það margsinnis átt sér stað að ríkisvaldið hefur snúist gegn dómsvaldinu með þeim hætti að fáheyrt hlýtur að teljast og er hægt að nefna um það mýmörg dæmi. Nægir að nefna öryrkjadóminn og það nægir að nefna fleiri en eitt atriði í sambandi við sjávarútvegsmál.

Hver eru aðalupptök þessa máls á sínum tíma sem runnið er undan rifjum formanns Framsfl.? Þau að efla atvinnu á Austurlandi. Hvaða nauðsyn bar sérstaklega til þess í þessu falli að stemma stigu við fólksflótta frá Austurlandi, sem er staðreynd, eins og öðrum landshlutum að kalla öllum nema suðvesturhorninu? Hvaða nauðsyn bar til? Þá nauðsyn að hæstv. utanrrh., formaður Framsfl., hafði verið frumkvöðull að því að loka eða hamla áframhaldandi rekstri aðalatvinnuvegs Austfirðinga í sjávarútvegi. Hann er meginhöfundur þess að mönnum er bannað að sækja sjóinn sinn og hann er aðalhöfundur þess kerfis sem er að ræna landsbyggðarmenn framfærslu sinni og til að skjóta skildi fyrir þetta í sínu eigin kjördæmi gerir hann það með því að hefjast handa um stóriðju. Þannig á að viðhalda byggðinni austur þar. Auðvitað mundi það aldrei standast til neinnar lengdar þótt nokkrum atvinnufærum yrði komið þar á fót. Eina lausnin er auðvitað sú að menn fái að búa sjálfir að aðalatvinnuvegi sínum og þeirri framleiðslu sem hægt er að stunda í honum sjálfum.

Hvernig er reyndar ástandið í sjávarútvegsmálum, herra forseti, --- sem þessu kemur bókstaflega við því að þær línur liggja saman --- á Austurlandi um þessar mundir? Grindvíkingar hafa lagt undir sig sjávarútveginn á suðurfjörðum, Samherji á Akureyri er langt kominn með að leggja undir sig SÚN í Neskaupstað og ÚA á undirstöðuatvinnuveg Stöðfirðinga. Eskifjörður er enn þá sjálfstæður sem betur fer og verður vonandi ekki hruggað við honum nema ef Stoke á Englandi skyldi fara á hausinn, þá hefur það náttúrlega sín áhrif. Vopnafjörður heldur enn sinni stöðu og þó er þar á sótt af miklu kappi. Þeim hefur þó tekist að verjast en hafa þó orðið að sækja aðstoð í annan landshluta, sækja vopn sín til Hafnarfjarðar, og hefur þar aðeins tekist að stemma stigu við þeirri þróun um hríð. Hornafjörður, þar sem aðalfyrirtæki hæstv. utanrrh. er, stendur enn nokkuð fyrir sínu en það veit þó enginn hversu lengi það verður.

Sá sem hér stendur hefur lengi haft áhuga á að brúa vatnsföll á Austurlandi og hann hefur áhuga á að beisla hið firnamikla afl við Kárahnjúka. Hann hefur að vísu séð á því vankanta en hefur talið sér trú um að tækni framtíðarinnar mundi ráða bót á þeim og þau skilyrði sem sett hafa verið fram af hálfu umhvrh. sýnast honum vera mikils verð. Honum óar þó við að veita hinu mikla vatni í Jökulsá á Dal yfir í Fljótsdal og honum óar ekki síður við hinum miklu fjörum sem munu myndast á þessu ógnarlanga lóni beggja megin, 70 m fjöruborð sem myndast árlega, því að hann hefur kynnt sér hvílíkt vatnsfall Jökulsá á Dal er, sem í hlaupum er talin flytja fram af föstu efni 150 þúsund smálestir á sólarhring. Þegar menn fá sér í fötu úr ánni er 1/3 sem sest til af föstum efnum þegar þann veg stendur á.

Ég hef haldið því fram og hef mikinn áhuga á að vera umhverfissinni en þó hef ég talið að okkur bæri nauðsyn til að víkja eitthvað af þeirri leið vegna beislunar þessa nauðsynlega afls okkur til handa. Það kann vel að vera, og ég er að vænta þess að þetta fráhvarf Norðmanna frá byggingu álvers verði lán í óláni, að þeirri miklu orku sem þarna gefst kostur á verði síðar varið til þess að framleiða t.d. vetni, einkum og sér í lagi það eldsneyti sem mun verða fært til notkunar alveg á næsta leiti. Ég fíkist ekkert í átta til tíu ár, það er ekki löng lykkjustund í lífi þjóðar.

Hér leyfa menn sér að hafa í frammi fullyrðingar sem geta ekki verið nema af því sem viðkomandi álíti sig vera að tala við barn eða flón. Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir sagði í morgun að þessi framkvæmd væri umhverfisvæn. Við hverja er verið að tala á hinu háa Alþingi með þessum hætti? Auðvitað er hún það ekki. Auðvitað ætlum við með því að virkja Kárahnjúka að fórna töluverðu og því miður kannski meira en okkur órar fyrir, því miður. En ég er ekki horfinn frá hugmyndum mínum enn um að beisla það mikla afl.

Hver er svo staða málsins nú? Forsendurnar fyrir frv. eru brostnar. Samt á að halda áfram og fá umboð til handa hæstv. iðnrh. að veita virkjunarleyfi. Ég hef áður rakið það hver reynsla okkar er af samningum og viðskiptum við Norðmenn. Það er ekki langt síðan við áttum orðastað um það, ég og hæstv. iðnrh., í þessum sal og vildi hún þá lítið mark taka á því sem ég sagði í því efni. Hafa menn ekki kynnt sér til að mynda Elkem-málið og járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði, þeir sem stjórna þessum málum nú til dags?

Auðvitað vorum við óforsjál vegna járnblendiverksmiðjunnar á sínum tíma. Menn ruddust um og ruku til og virkjuðu Sigöldu og héldu sig þá hafa fasta í hendi samninga við hið fræga fyrirtæki Union Carbide í Bandaríkjunum. Það var þó það fast undir fótum með það mál að Union Carbide varð að leysa sig frá því máli með verulegum sektum á sínum tíma. En við höfðum þarna aflstöðina miklu en ekkert verkefni henni til handa.

Fyrir austan segja menn, eins og Finnur Ingólfsson í viðtali við Morgunblaðið, að þetta sé mjög arðsamt, þetta sé arðgæft. Þó að enginn kaupandi sé að orkunni sem þarna á að framleiða. Hverjir ná að skilja annan eins og þvílíkan málflutning og í þessu felst?

Nei. Og Elkem, Norðmenn sáu hvað okkur leið og þeir notuðu aðstöðu sína og það haustak sem þeir áttu á okkur með ótrúlegum hætti, jafnvel svo að árum saman tóku þeir fyrir tækniþekkingu sína 3% af allri veltu fyrirtækisins. Og orkuverðið? Ætli það sé u.þ.b. 1/3 af því sem almenningur borgar fyrir sína orku núna? Kannski enn þá minna. Ég hef ekki tölur handbærar. Kannski enn þá minna.

Í fjögur, fimm ár er búið að þæfa þetta mál, sem við hér nú ræðum við Norðmenn, án þess að þeir hafi skuldbundið sig í einu né neinu. Við höfum nú í lögum bundið að við getum ekki farið niður fyrir ákveðin viðmiðunarmörk um verð á orkunni. Það goppaðist upp úr formanni Landsvirkjunar fyrir nær tveimur árum hygg ég að við þyrftum engar áhyggjur að hafa af orkuverðinu. Á hvaða forsendum skyldi hann hafa byggt þetta? Ég sé það fyrir mér, tel Landsvirkjunarmenn hafa upplýst Norðmenn um hvað væri lágmark orkuverðs sem hægt væri að semja um á grundvelli hinna nýju laga um að ekki megi fara niður fyrir ákveðna viðmiðun um orkuverðið. Norðmenn hafa brosað út í bæði og skálað við ,,frænder og venner`` eins og þeirra er siður, en ekkert gefið út á málið.

[16:15]

Ég þóttist þá þegar sjá hvert stefndi vegna þess að álverð hefur verið að lækka í heiminum nú um margra ára skeið og það hefur lækkað núna á nokkrum árum úr 1.700 dollurum tonnið ofan í 1.300. Það munar um minna. Norðmenn hafa gert sér þá þegar grein fyrir því að ekki væri hægt að ná orkuverði hjá Íslendingum fyrir hina nýju virkjun sem hægt væri að reka áliðjuver á. Það er alveg augljóst og það er nákvæmlega sama hvaða reikninga menn setja upp, áliðjuver á Reyðarfirði verður ekki rekið fyrir það orkuverð sem hægt er að semja við þá um ef standast eiga rekstrarútreikningar Kárahnjúkavirkjunar, og verður vafalaust ekki um langa, langa framtíð og kannski aldrei.

Til dæmis eru Kínverjar sem hafa verið einir aðalkaupendur hrááls eða áls um langa hríð, að verða útflytjendur bráðum. Menn hafa kannski gert sér grein fyrir því hvaða virkjun þeir eru að ráðast í um þessar mundir. Þetta er því mjög mikið vafamál, en kannski má það heita ágætt í sjálfu sér að við komumst út úr þessum álframleiðslugeira.

Hvers vegna í ósköpunum sækja þá stjórnvöld eftir að Alþingi hið háa veiti þeim virkjunarleyfi nú? Það er alveg augljóst og blasir við að úr sögunni eru allir samningar við Norðmenn. Það er alveg augljóst að um langa hríð munum við engum samningum ná við neinn orkukaupanda um söluna á orkunni frá Kárahnjúkavirkjun.

Hvernig stendur þá á því að ríkisstjórn, sem á nú ekki eftir nema eins og eitt og hálft ár af líftíma sínum sækist svo harkalega eftir því að fá þetta virkjunarleyfi afgreitt? Menn jafnvel höfðu það uppi sem röksemd að ef við ekki veittum þetta leyfi þá gætu aðrir hugsanlegir orkukaupendur í heiminum reiknað með að við værum bundnir af Norsk Hydro. Hvernig er þetta reiknað út, með leyfi? Og svo er í hinu orðinu sagt að álframleiðendur og stórorkukaupendur í heiminum séu ekki margir og fylgist svo vel hver með öðrum að þeir viti nákvæmlega hvað klukkan slær. Þeir vita að Norðmenn hafa horfið frá þessum viðskiptum.

En það er annað sem að baki býr og menn skulu minnast orða minna. Á útmánuðum næsta vetur mun hæstv. iðnrh. gefa Landsvirkjun virkjunarleyfi og pólitísku augnaþjónarnir í Landsvirkjun munu hefja vængjabusl og láta líta svo út að nú sé verið að fara af stað á Austurlandi með stórvirkjunina og stóriðjuver. Þetta eru atkvæðakaupin sem þarna eiga að fara fram og við vitum hverjir eru væntanlegir frambjóðendur þar. Minnist orða minna og hvort ég hef ekki rétt fyrir mér að þessu leyti.

Hinn nýi formaður viðræðunefndar mun ekki liggja á liði sínu með upplýsingar um að nú sé alveg að koma á samningur við stórorkukaupanda. Hann mun jafnvel búa í París einhverja hríð til þess að geta lýst því yfir að hann sé í innilegum viðræðum við Pechiney sem aldrei hefur virt okkur viðlits, veitti okkur Alberti heitnum Guðmundssyni einu sinni viðtal með naumindum. En forstjórinn var kvefaður og hafði ekkert um þetta mál að segja. Þar með lauk afskiptum Íslendinga af viðræðum við Pechiney, þetta mikla áliðjufyrirtæki.

Fenginn er til skjalanna fyrrv. iðnrh., hinn lítilþægi Finnur Ingólfsson, sem átti í samningum við Elkem á sínum tíma. Þegar gengi bréfa í járnblendiverksmiðjunni var talið 2,2--2,5 skrifaði Elkem bréf til Finns og bauðst til þess að kaupa af Íslendingum á genginu 1. Þótt venjulegir menn, ólítilþægir, hefðu ekki virt þetta viðlits settist Finnur undir eins niður með þeim til þess að semja við þá. Það getur vel verið að hann henti vel í þetta nýja embætti sitt ef það er rétt sem er fleygt að hann hafi gefið Norðuráli í Hvalfirði ádrátt á sínum tíma um sams konar orkuverð og hann samdi þá um við þá --- ætli það sé helmingurinn af því sem neytandinn íslenski borgar í orkuverð? Ég stórefast um að það --- að gefið hafi verið loforð um það að þeir gætu fengið meiri orku keypta á þeim prís sem þá var samið um. Lög sem síðar eru sett til viðmiðunar verka ekki aftur fyrir sig eins og menn þekkja. Þess vegna ætti hann að eiga mikið erindi nú til þessara mála.

Í viðtali við Morgunblaðið --- og ég leyfi mér þegar ég vitna til þess viðtals, herra forseti, að leita leyfis fyrir þessum málsgreinum sem ég nú les, öllum í einu.

Hann kveðst bjartsýnn á að álver rísi á Austurlandi í framtíðinni. Á hverju skyldi hann byggja þá bartsýni eftir að við höfum orðið fyrir þessari útreið sem við höfum orðið fyrir, þ.e. að alls engar líkur eru á að neitt stóriðjuver verði byggt þarna? Hann er að byrja sem sagt að mála á vegginn fyrir kjósendur á Austurlandi því að því hlutverki ætlar hann aðallega að gegna að vera vottur um það fyrir Austfirðinga, þegar þeir kjósa næst, að þetta sé allt að koma.

Já, hann telur mikilvægt að nálgast verkefnið með opnum huga.

,,Fyrsta verkefni okkar í nefndinni`` --- eins og segir hér orðrétt, ---,,er að meta stöðuna í þessum álmálum``

Hæstv. iðnrh. Hefur ekkert mat farið fram á þessari stöðu eða þessum málum yfirleitt? Þarf að sækja mann upp í Seðlabanka til þess að meta nú stöðuna? Hann ætlar bara alveg upp á nýtt að meta stöðuna í álmálinu. Og þetta er frumverkefni, frumrannsóknarverkefni, eins og skilja má þessi orð.

,,Hann segist hafa þá trú að fyrirtæki, sem ætli að fjárfesta í áliðnaði í framtíðinni, séu tilbúin að fjárfesta í álveri á Reyðarfirði þar sem verkefnið sé mjög arðbært.``

Ég sagði hér áðan og það liggur alveg fyrir að álver verður ekki rekið fyrir það orkuverð sem við þurfum fyrir orku frá Kárahnjúkavirkjun ef Kárahnjúkavirkjun á að standast, og það er langt, langt í það, langt, langt því frá. En hann er bjartsýnn og hann gengur með þessa bjartsýni til þess að meta nú stöðuna upp á nýtt.

,,Álheimurinn er lítill og þröngur --- segir þessi fyrrv. iðnrh. --- ,,og þessum fyrirtækjum er án efa mjög vel kunnugt um Noral-verkefnið á Íslandi.``

En samt þarf að samþykkja þetta heimildarfrumvarp til þess nú að menn gruni ekki að við séum bundnir af Norsk Hydro.

,,Þau vita hvert af öðru í fjárfestingum og öðru slíku. Við getum ekkert sagt til um það á þessari stundu hverja við munum tala við eða í hvaða röð.`` --- Og svo kemur hér spekin þar sem kafað er dýpst. --- ,,Það er heldur ekki útilokað að þessir aðilar sýni málinu það mikinn áhuga að þeir hafi samband við okkur að fyrra bragði. Mér fyndist það ekki ósennilegt því verkefnið sem um ræðir er arðbært ...``

Hann mun náttúrlega fyrst, áður en hann gerir frekar upp stöðuna í álmálinu, fá sér myndir af biðröðunum. Þetta er bláber heimska, kjaftæði út í hött, með leyfi herra forseta.

Og svo er lokaatriðið í þessu makalausa viðtali:

,,Aðalatriðið er að ná árangri í því að þarna verði byggt álver sem nýti raforku úr Kárahnjúkavirkjun.``

Þetta er aðalatriðið en ekki það hvort við fáum nægjanlegt verð fyrir þessa orku. Það á bara að byggja hvort tveggja þótt ekkert standist og þótt Norðmenn séu búnir að segja okkur að það standist ekki neitt.

Einn megingalli á öllum viðræðum við Norðmenn frá upphafi var sá að ætlað var að við Íslendingar mundum eiga meiri hlutann í þessu stórvirki. Það á að vera frumskilyrði Íslendinga ef þeir semja um iðnfyrirtæki af þessum gráðum, að þeir eigi ekkert í þeim. Við áttum að eigi meiri hlutann en Norðmenn áttu að leggja til alla tæknina og þeir áttu að selja allt saman og þeir áttu að kaupa aðföngin. Við hefðum sem sagt engu stjórnað og raunar er það fyrirsjáanlegt að við mundum engin áhrif hafa á hinum stóra álmarkaði heimsins.

Við megum engu til hætta af okkar eigin fé til byggingar slíks iðnvers. Það átti alltaf að vera afstaða okkar. Hún breyttist af neyð út af járnblendinu á sínum tíma, af hreinni neyð, þar sem við vorum neyddir til að eiga meiri hlutann og Elkem valsaði með eigur okkar eins og dæmin sönnuðu og núverandi forustumenn í iðnaðarmálum hljóta að hafa kynnt sér.

Og hann segir hér enn, seðlabankastjórinn:

,,Ég tel að við höfum mjög margt upp á að bjóða hér, sem getur verið áhugavert fyrir hvaða stórfyrirtæki sem er á þessu sviði í heiminum. Við munum nálgast verkefnið út frá því ...``

Lýkur hér tilvitnun í þennan herramann.

Hvað er það sem við höfum að bjóða? Við höfum ekki orku að bjóða sem stenst fyrir iðjuverið. Þeir geta ekki verslað við okkur því að þá fer það lóðbeint á hausinn og þeim dettur það ekki í hug af því að því er lokið, þeim sið sem við höfðum, að ganga að því með opin augu að láta almenning á Íslandi borga niður orkuna sem við seldum stóriðjuverunum. Við gengum að því við Alusuisse með opnum augum. Allt tal um svindl og sviksemi Alusuisse á sínum tíma var nú hrófatildur satt best að segja og hindraði okkur í mörg ár frá því að ná frambærilegu orkuverði. Árið 1984 munu menn hafa náð nýjum samningum um orkuverð sem ég hygg að hafi hækkað orkuverðið um eins og 3 milljarða á ári þá. Mig minnir að lágmarkið hafi verið 12,5 mill og hámarkið 18 mill og sveiflaðist það eftir álverði heimsins. En málatilbúnaður vinar míns, Hjörleifs Guttormssonar, var nú slíkur að mjög mikil hindrun var það í öllum samskiptum okkar við þetta fyrirtæki.

En það lá alveg ljóst fyrir á sínum tíma að til þess að koma Búrfellsvirkjun á þá urðum við að vinna málið svona. Og við kusum það með opin augu. Síðan hefur þetta alltaf verið mál sem ekki hefur mátt ræða með opnum munni og orkuverðið alltaf talið eitthvert hernaðarleyndarmál. Þetta er bara vegna þess að menn hafa ekki treyst sér til þess að standa frammi fyrir almenningi í landinu og segja: Heyrið þið, þið verðið að borga brúsann ef við skiptum við þessa háu herra.

Ég er alveg sannfærður um að þegar þeir semja um framhaldsstækkun við Norðurál í Hvalfirði með 10 mill orkuverði þá munu þeir svo sannarlega segja Íslendingum að það sé hernaðarleyndarmál sem aldrei verði upplýst.

Nú, þegar við ættum í raun að vera að ræða vantraust á ríkisstjórnina eða hæstv. iðnrh. sérstaklega vegna þess hvernig haldið hefur verið á þessu máli þá erum við að ræða um umboð til sömu stjórnvalda til þess að ákveða að leyfa stærstu framkvæmd í sögu þjóðarinnar. Sá sem hér stendur mun ekki veita slíkt umboð og tekur ekki þátt í slíkum endemis blekkingarleik eins og hér er verið að hafa í frammi, þar sem mönnum verður haldið í teygju, með von um að allt gangi fram eins og atkvæðasmalarnir hafa lofað upp í ermina á sér.