Kosningar til sveitarstjórna

Föstudaginn 05. apríl 2002, kl. 11:09:29 (6979)

2002-04-05 11:09:29# 127. lþ. 111.1 fundur 550. mál: #A kosningar til sveitarstjórna# (erlendir ríkisborgarar o.fl.) frv. 27/2002, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 127. lþ.

[11:09]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Rétt er að þetta var rætt í nefndinni um Norðurlandabúana en það komu engin rök fram um hvers vegna aðrar reglur ættu að gilda um þá hér en á Norðurlöndunum. Það væri auðvitað fróðlegt að fá þau rök fram í umræðunni og nánast nauðsynlegt. Ekki voru nein rök um það, bara sagt að ekki væri vilji fyrr því hjá stjórnarmeirihlutanum að ganga lengra hvað varðar frændur okkar frá Norðurlöndum.

Varðandi rafrænu kosningarnar þá held ég að einhvers misskilnings gæti hjá hv. þm. Lagatæknilega var það ekki hægt vegna þess að það var ekki í frv. Aftur á móti ef brtt. frá okkur yrði samþykkt, þá væri lagatæknilega hægt að vera með rafrænar kosningar að hluta til hjá þeim sveitarfélögum sem óska eftir því.

Öryggið er í lagi nema það kom fram í nefndinni að ekki væri í næstu framtíð hægt að gera ráð fyrir að beinu lýðræði yrði komið á þannig að menn gætu kosið t.d. í gegnum tölvu. Þar væri öryggið ekki fyrir hendi og mundi ekki verða í næstu framtíð þannig að það væri langtímamarkmið að huga að því. En rafrænar kosningar og rafrænir kjörstaðir ættu að geta verið hér samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu hjá þeim sem vilja hafa þær ásamt hinum venjulegu hefðbundnu kosningum.