Kosningar til sveitarstjórna

Föstudaginn 05. apríl 2002, kl. 11:11:04 (6980)

2002-04-05 11:11:04# 127. lþ. 111.1 fundur 550. mál: #A kosningar til sveitarstjórna# (erlendir ríkisborgarar o.fl.) frv. 27/2002, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 127. lþ.

[11:11]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þetta sé enginn misskilningur hjá mér. Þetta kom fram hjá ráðuneytismönnum og ég held að allir sjái að búið er að vera að þróa lög um kosningar til sveitarstjórna og til Alþingis síðan við byrjuðum að kjósa. Við þekkjum það sem höfum staðið í þessu hve auðvelt hefur verið að misskilja lagatextann og greiða hefur þurft úr flækjum vegna vafaatkvæða og hinna og þessara uppákoma sem verða þegar verið er að kjósa. Þessi lög hafa að sjálfsögðu þróast miðað við þá reynslu sem menn hafa fengið eftir kosningar hverju sinni.

Að halda að hægt sé að breyta þessum lögum bara á nokkrum vikum þannig að þau geti talist fullnægjandi, finnst mér í rauninni barnaskapur að ímynda sér. Ég verð að segja það. (Gripið fram í.) Mér finnst það einum of mikil bjartsýni að ímynda sér að hægt sé að breyta þessum lögum á svo skömmum tíma.