Kosningar til sveitarstjórna

Föstudaginn 05. apríl 2002, kl. 11:14:16 (6982)

2002-04-05 11:14:16# 127. lþ. 111.1 fundur 550. mál: #A kosningar til sveitarstjórna# (erlendir ríkisborgarar o.fl.) frv. 27/2002, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 127. lþ.

[11:14]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki orðið var við það í nefndarstarfi að menn kæmu með skriflega tillögu ef þeir vildu fá einhverjar breytingar á lögum eða þáltill. (Gripið fram í.) Ég sagði á fundi með nefndinni, ég vona að það hafi verið bókað, að ég teldi eðlilegt að Norðurlandabúar hefðu sama rétt til sveitarstjórnarkosninga og við hefðum annars staðar á Norðurlöndunum. Ég sagði það í nefndinni. Það getur vel verið að ekki muni það allir í nefndinni en ég veit að ég hafði þessi orð á nefndarfundi. Það er aftur allt annað mál hvernig það er svo hantérað.

Ég viðurkenni að ég var ekki á nefndarfundi þegar þetta mál var afgreitt og þess vegna útskýrði ég það áðan að ef ég hefði verið á fundinum, þá hefði ég verið með fyrirvara.

Ef ég hef sagt að það væri lapsus hjá nefndinni, þá var það ekki meining mín. Ég lít svo á að einhver yfirsjón hafi verið hjá þeim sem undirbjuggu frv. og lögðu það fyrir þingið, að taka þetta ekki með nefndarstarfinu og setja það í lagafrv. eins og það kom fyrir þingið og nefndina. Ég var ekki að meina að formaðurinn hefði gert einhver mistök að þessu leyti.

Það er svo aftur alveg rétt hjá hv. formanni að þetta er búið að vera svona lengi. Norðurlandabúar hafa búið við það hér að vera ekki með sömu réttindi og aðrir Norðurlandabúar veita okkur, en ég get ekki séð að það sé nein afsökun.