Kosningar til sveitarstjórna

Föstudaginn 05. apríl 2002, kl. 11:16:37 (6983)

2002-04-05 11:16:37# 127. lþ. 111.1 fundur 550. mál: #A kosningar til sveitarstjórna# (erlendir ríkisborgarar o.fl.) frv. 27/2002, KHG
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 127. lþ.

[11:16]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég fagna því efnisatriði í frv. sem kveður á um rétt útlendinga til kosninga við sveitarstjórnir og kjörgengis til þeirra. Hér er um að ræða nýmæli sem er fyllilega þarft. Ég vil minna á að ég varpaði fram hugmynd um það í umræðu fyrir nokkrum árum á Alþingi þegar við vorum að fjalla um breytingar á lögum um kosningar til sveitarstjórna, að rétt væri að huga að þessari breytingu þannig að útlendingar sem hér lifa og starfa og hafa gert árum saman og taka á sig þær skyldur sem fylgir því að búa hér, svo sem að greiða skatta og annað slíkt, öðlist samhliða þann rétt sem fylgir því sem aðrir íbúar eiga í sveitarfélögum. Ég tel því að breytingin sem frv. gerir ráð fyrir sé mikið framfaraspor og mun styðja hana þó svo að ég leyni því ekki að ég hefði talið rétt og eðlilegt að framkvæma breytinguna að þessu sinni á þann hátt að ekki væri mismunur á réttindum útlendinga eftir þjóðerni.

Ég hef ekki fengið rök fyrir því að rétt sé að mismuna útlendingum hérlendis að þessu leyti, þ.e. eftir því hvort þeir eru fæddir á Norðurlöndum eða annars staðar.

Vegna þeirra ummæla sem hér hafa fallið fyrr í umræðunni þar sem því er í raun beint að félmrh. að hann hafi ekki lagt fram frv. öðruvísi en með þessum hætti og þess vegna megi rekja það til hans að frv. sé svona úr garði gert, er rétt að það komi fram að við undirbúning málsins var gert ráð fyrir því að þessi réttur væri sá sami fyrir alla útlendinga. En það er eins og gengur í stjórnarsamstarfi að menn þurfa að ná saman um hlutina og niðurstaðan varð sú sem frv. gerir ráð fyrir. Ég tel því að menn eigi ekki að beina þeirri ábyrgð til félmrh. að hafa gengið frá málum eins og frv. gerir ráð fyrir. Ég held að það sé ósanngjarnt og ekki réttlætanlegt að setja málið þannig upp að ætla megi að félmrh. standi gegn því að réttindi útlendinga að þessu leyti séu samræmd.

Ég vil hins vegar segja að málið er framfaraspor og oft er það þannig með framfaraspor að þau koma í áföngum. Náðst hefur samkomulag um þennan áfanga og er eðlilegt og sjálfsagt að standa við það samkomulag. Hitt kemur vonandi seinna þegar mönnum hefur tekist að tala fyrir því og öðlast meiri stuðning við það sjónarmið að réttindin verði samræmd. Ég er í engum vafa um það að það mun koma fyrr eða síðar.