Bókhald, ársreikningar og tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 05. apríl 2002, kl. 11:29:26 (6986)

2002-04-05 11:29:26# 127. lþ. 111.3 fundur 347. mál: #A bókhald, ársreikningar og tekjuskattur og eignarskattur# (reikningshald í erlendum gjaldmiðli) frv. 25/2002, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 127. lþ.

[11:29]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Eins og sjá má af nál. og brtt. með þessu frv. hefur málið tekið miklum breytingum í meðferð nefndarinnar. Nefndin flytur fjölda brtt. við frv. um bókhald og ársreikninga. Með þessum breytingum hefur náðst víðtæk samstaða um þetta mál. Ríkisskattstjóri gerði töluvert miklar athugasemdir við málið eins og það var lagt fram, sérstaklega að því er varðar áhrif á skattframkvæmdina sem hann taldi að gæti orðið allvíðtæk, og síðan áhrif á skattlagninguna sem gæti orðið nokkur.

Herra forseti. Fram kom hjá ríkisskattstjóra um skattframkvæmdina og þau óæskilegu áhrif sem frv. eins og það leit út í upphafi gæti haft, að það þyrfti að lágmarki að sjá til þess að þrátt fyrir breytingar verði þeim félögum sem velja að halda bækurnar í erlendum gjaldmiðli skylt að halda og skila til skattyfirvalda upplýsingum í íslenskum krónum sem varða skil á tryggingagjaldi, virðisaukaskatti og öðrum sköttum.

Að því er varðar áhrif á skattlagninguna sjálfa þá taldi ríkisskattstjóri að áhrifin gætu orðið nokkur og að því leyti sem þau væru til staðar gæti skapast misræmi milli þeirra sem lúta almennum íslenskum bókhaldsreglum og hinna sem kjósa að nota erlendan gjaldmiðil við færslu á bókhaldi sínu. Þessi áhrif á skattlagninguna gætu orðið á hvorn veginn sem er, en það breytir engu um það að ekki er æskilegt að atriði eins og gjaldmiðill í bókhaldi ráði skattlagningu. Taldi ríkisskattstjóri það einkum vafasamt ef svo háttar að sumir skattaðilar geti valið sér léttari skattlagningu en almennt gerist.

Herra forseti. Á þessum athugasemdum hefur verið tekið í góðu samkomulagi milli nefndarinnar, ríkisskattstjóraembættisins og fjmrn. þannig að málið er í þeim búningi að við fulltrúar Samfylkingarinnar getum sætt okkur við það eins og það lítur út núna og munum greiða því atkvæði þegar það kemur til atkvæðagreiðslu.