2002-04-05 11:50:54# 127. lþ. 111.4 fundur 705. mál: #A bótaábyrgð vegna tjóns af notkun loftfars vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða áþekkra atvika# (framlenging ábyrgðar) frv. 26/2002, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 127. lþ.

[11:50]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hér er enn og aftur verið að framlengja frv. sem ég hef haft afskaplega miklar efasemdir um vegna framkvæmdar þess. Mig langar til að spyrja hv. formann efh.- og viðskn., flutningsmann þessa máls, Vilhjálm Egilsson, að því hver sé hámarksáhætta eða hámarkstjón sem íslenska ríkið geti orðið fyrir ef allt færi á versta veg varðandi þetta mál. Ef hryðjuverkamenn tækju röð af íslenskum flugvélum. Vil ég spyrja: Hver er áhætta íslenska ríkisins?

Ég hef margoft bent á að fjmrh. ætti fyrir hönd ríkissjóðs að leita leiða til að fá aðrar þjóðir í gagnkvæmt endurtryggingarsamkomulag um þetta mál sem minnkaði áhættu allra aðila sem að því koma. Mér skilst að það hafi ekki enn verið gert. Ég vil því spyrja hv. flutningsmann, Vilhjálm Egilsson, hvort honum sé kunnugt um að íslenska ríkið hafi minnkað áhættu íslenska ríkisins með því að gera gagnkvæmt endurtryggingarsamkomulag við aðrar ríkisstjórnir.

Hér er um að ræða mál sem er þvílíkt að stærð að það mundi jafnast á við móðuharðindi ef mestu áföll sem hér er verið að ræða um mundu dynja yfir.