2002-04-05 11:52:36# 127. lþ. 111.4 fundur 705. mál: #A bótaábyrgð vegna tjóns af notkun loftfars vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða áþekkra atvika# (framlenging ábyrgðar) frv. 26/2002, Flm. VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 127. lþ.

[11:52]

Flm. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi spurningu hv. þm. Péturs Blöndals þá vil ég taka fram að það gefst tækifæri til að spyrja fulltrúa fjmrn. sérstaklega að því við umfjöllun nefndarinnar hvort ríkið hafi lagt eitthvað á sig til þess að reyna að koma á fót einhverju alþjóðlegu samstarfi um endurtryggingar eða hvort slíkt gagnkvæmt bandalag milli Íslands og annarra þjóða hafi verið í myndinni.

Varðandi kostnaðinn hefur áhættan farið minnkandi. Hún var, að því mér skilst, mjög veruleg eftir 11. sept., þ.e. fyrst þegar þessi trygging var veitt. En síðan hefur áhættan farið lækkandi og því ekki alveg nákvæmlega sama áhætta núna og var þegar tryggingin var upphaflega tekin. En ef öllum flugvélum sem Íslendingar eiga yrði grandað í einu með hryðjuverkum eða slíku þá yrði kostnaðurinn að sjálfsögðu yfirþyrmandi fyrir ríkið en ég hygg að afar litlar líkur séu á að slíkt tjón geti orðið.