2002-04-05 11:54:07# 127. lþ. 111.4 fundur 705. mál: #A bótaábyrgð vegna tjóns af notkun loftfars vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða áþekkra atvika# (framlenging ábyrgðar) frv. 26/2002, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 127. lþ.

[11:54]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Við fyrstu útgáfu þessa frv. var áhættan að mig minnir 2.700 milljarðar ísl. kr., þ.e. tvöföld öll eign íslensku þjóðarinnar og sennilega áttföld fjárlög ríkisins. Þetta yrði því meiri háttar áfall ef það kæmi upp. Mér er líka kunnugt um að þessi áhætta hafi minnkað en mér þykir undarlegt að flutningsmanni sé ekki kunnugt um hvaða áhætta felst í frv. sem hann flytur sjálfur. Ég óska eftir því að þetta verði kannað mjög nákvæmlega á fundi efh.- og viðskn. og einnig hvort menn hafi gert slíkan gagnkvæman endurtryggingarsamning, sem ég spyr um. Það er hægt að gera gagnkvæman endurtryggingarsamning milli tveggja ríkja, það þarf ekki heilt alþjóðasamstarf til þess. Íslendingar gætu, t.d. ef þeir eiga gott samstarf við Þýskaland, gert gagnkvæman endurtryggingarsamning við það ríki og minnkað áhættu beggja ríkjanna, þ.e. við tækjum þátt í því ef þeir lentu í tjóni, náttúrlega sáralítið, og þeir mundu taka þátt í okkar tjóni og þá að verulegum hluta.

Það þarf ekki einu sinni að hafa nein iðgjöld í slíkum samningi. Þetta væri gagnkvæmur endurtryggingarsamningur á milli tveggja ríkja. Og hann gæti verið tvíhliða, við Noreg eða hvaða ríki sem er.

Ég skora því á hv. þm. að beita sér fyrir því í efh.- og viðskn., sem ég á ekki sæti í, að lagt verði hart að íslensku ríkisstjórninni að leita slíkra leiða.