2002-04-05 12:05:25# 127. lþ. 111.4 fundur 705. mál: #A bótaábyrgð vegna tjóns af notkun loftfars vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða áþekkra atvika# (framlenging ábyrgðar) frv. 26/2002, Flm. VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 127. lþ.

[12:05]

Flm. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara taka það fram að áhættan fyrir ríkið hefur minnkað vegna þess að í fyrsta lagi er hægt að kaupa á markaði hærri grunntryggingu en áður var. Í öðru lagi hefur verið hægt að ná fram lækkun á þeim tryggingakröfum sem mundu verða gerðar á hendur flugrekendum ef illa færi. Þetta eru grunnástæðurnar fyrir því að áhættan hefur minnkað. Þetta er hins vegar bara áframhaldandi ferli að reyna að ná utan um þessa hluti.

Varðandi dagsetninguna í haust, sem hv. þm. nefndi þá kom sú dagsetning til umræðu þegar framlengingin til 10. apríl var veitt. Það var ákveðin stemning fyrir því í nefndinni á þeim tíma að miða við haustið og vera ekki að koma með málið aftur inn hér í vor. Fulltrúar fjmrn. vildu hins vegar hafa þessa dagsetningu inni og það var tillaga frá fjmrn. að hafa þetta inni til 10. apríl. Þess vegna tók nefndin það upp.

Ég tel í sjálfu sér ekkert áhorfsmál hvort miða skuli við 10. október, 1. nóvember eða 31. desember. Ég tel hins vegar að við höfum tekið á hinu háa Alþingi ákveðna prinsippafstöðu til þessa máls og að ríkið ætli sér að taka þátt í þessu með sama hætti og gert er í nágrannalöndum okkar. Þess vegna hef ég ákveðið að standa að þessu og flytja þetta mál.