2002-04-05 12:07:19# 127. lþ. 111.4 fundur 705. mál: #A bótaábyrgð vegna tjóns af notkun loftfars vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða áþekkra atvika# (framlenging ábyrgðar) frv. 26/2002, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 127. lþ.

[12:07]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni fyrir að veita þessar upplýsingar. Mér var þetta ekki ljóst áður. Ég vissi ekki að áhætta ríkisins hafði minnkað né heldur að kostnaðurinn væri minni. Ég gerði mér ekki grein fyrir því. Þetta er auðvitað eitt af því sem við þurfum að skoða í nefndinni. Mér finnst að þegar um er að tefla svona mikla hagsmuni þurfi að ná vel utan um málið. Við þurfum að gera okkur nákvæmlega grein fyrir því hvað sé á ferðinni. Það gerum við einfaldlega ekki. Ég held að engum þingmanni nema e.t.v. hv. formanni efh.- og viðskn. sé nákvæmlega ljóst hvað í þessu liggur, hver kostnaðurinn sé og hver áhættan sé.

Herra forseti. Í öllu falli finnst mér ekki góð vinnubrögð að ætla að keyra þetta í einum rykk í gegnum þingið án þess að viðkomandi fagnefnd brjóti þetta mál til mergjar eins og vera ber. Ég held að við þurfum að vera algjörlega klár á því hvað við séum að gera hérna.

Málið er mjög óvanalegt. Það er mjög óvanalegt að ríkið grípi inn í mál með þessum hætti. Það var nauðsynlegt vegna þess að ella hefðu flugsamgöngur stöðvast. Við skiljum alveg nauðsyn þess og við styðjum það að gripið sé til þeirra úrræða sem nauðsynleg eru. Spurningin er: Eru þau úrræði sem hér eru lögð til algjörlega nauðsynleg? Er þessi langi tími algjörlega nauðsynlegur? Getur verið að hægt sé að kaupa einhvers konar tryggingar, þá e.t.v. við hærra verði, sem gerðu það að verkum að íslenska ríkið þyrfti ekki að fara með þessum hætti inn í málið?

Fyrst verið er að framlengja málið á þennan hátt hljóta menn síðan að skoða hvort hægt sé að gera endurtryggingarsamninga við önnur ríki. Hv. þm. Pétur Blöndal nefnir Noreg. Ef hægt er að gera slíkan samning við Noreg þá þýðir það að áhætta íslenska ríkisins verður bara 1/20 af því sem hún hefði ella verið. Ef við gerðum slíkan samning við öll Norðurlöndin mundi hún sennilega minnka niður í 1% af því sem hún ella væri.