Kosningar til sveitarstjórna

Föstudaginn 05. apríl 2002, kl. 14:23:13 (7007)

2002-04-05 14:23:13# 127. lþ. 112.1 fundur 550. mál: #A kosningar til sveitarstjórna# (erlendir ríkisborgarar o.fl.) frv. 27/2002, HBl
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 127. lþ.

[14:23]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég hélt raunar þegar hv. þm. tók til máls um þá konu sem einungis hefði haft tækifæri til að kjósa hér þrisvar að hann væri að tilkynna að hann ætlaði að leggja fram skriflega brtt. við frv. um að þessi lög yrðu gerð afturvirk.

Við Íslendingar sem hér búum setjum okkur auðvitað lög og reglur í samræmi við þær hugmyndir sem við höfum. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að sú saga er ekki ný að Norðurlandaþjóðirnar vilji standa vel saman. Eins og ég drap á í ræðu í dag var á sínum tíma skipuð nefnd til að móta tillögur um hvernig réttur manna skyldi vera til að taka þátt í sveitarstjórnarkosningum á Norðurlöndum. Þá varð niðurstaðan sú að miðað skyldi við þrjú ár en ég hygg þó að Svíar hafi á þeim tíma gengið lengra. Síðan hefur þetta verið að breytast.

Eins og ég rakti í ræðu í dag hafa allar þjóðir Evrópusambandsins rétt til að taka þátt í atkvæðagreiðslu í sveitarstjórnarkosningum í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi frá þeim degi sem þær flytja lögheimili sitt. Þetta er auðvitað mjög athyglisvert. Með sama rétti getur maður velt því fyrir sér, þegar maður hugsar til Breta sem við höfum átt langt og gott samstarf við --- góðar sagnir eru um það í Íslendingasögum að þegar mikið hafi legið við hafi menn selt þangað skreið --- hvort ekki sé kominn tími til að við veitum Englendingum sama rétt til að taka þátt í sveitarstjórnarkosningum hér eins og Norðurlandabúum, þá með gagnkvæmum samningi við Englendinga. Eins og ég hef áður sagt tel ég að eina forsendan sem við getum haft fyrir því að veita sumum þjóðum meiri rétt en öðrum hljóti að vera sú að um gagnkvæman rétt sé að ræða, og sú vinaþjóð okkar sem við viljum veita slíkan rétt hafi þá einnig veitt Íslendingum rétt til að taka þar þátt í sveitarstjórnarkosningum innan sama tíma.

Ef aðrar þjóðir vilja ganga lengra í þessu efni er það auðvitað þeirra mál. Ég hef aldrei skilið Norðurlandasamstarf þannig að við ætluðum að elta Norðurlandaþjóðirnar í allri löggjöf, sama upp á hverju þær tækju. Við höfum einmitt lagt þunga áherslu á það, ég og einnig hv. 3. þm. Norðurl. e. að því er ég hélt, að við vildum ekki gerast meðlimir í Evrópusambandinu vegna þess að við ætluðumst til að við sjálf réðum hvaða lög og reglur giltu hér á landi, við værum ekki aftaníossar annarra þjóða í þeim efnum. Þetta er auðvitað það grundvallarsjónarmið sem við hljótum að hafa.

Ég get ekki skilið þann málflutning sem hér hefur verið, að það eigi að vera einhver hipsumhapsregla sem ræður eftir hverju sé farið þegar verið er að ákveða hversu lengi erlendir menn skuli búa hér áður en þeir njóti atkvæðisréttar. Eins og ég sagði tel ég að um gagnkvæman rétt hljóti að vera að ræða ef við viljum gefa öðrum þjóðum meiri rétt en hin almenna regla segir til um. Þannig er það samkvæmt þessu frv. og samkvæmt lögum að við gefum Norðurlandabúum þriggja ára rétt í staðinn fyrir fimm sem verður hin almenna regla. Það er auðvitað á þessum gagnkvæma rétti sem það byggist.

Svo vil ég ítreka það sem ég sagði: Mér er fullkomlega óskiljanlegt þegar þingmaður eftir þingmann stendur hér upp og reynir að færa þau ein rök fyrir máli sínu að einhverjar aðrar þjóðir hafi skipað málum sínum með einhverjum hætti. Ég hélt satt að segja að sjálfsvirðing þingmanna, virðingin fyrir þjóð sinni og sjálfum sér, væri meiri en svo að þeir þyrftu að afsaka sig með slíkum rökum.