Kosningar til sveitarstjórna

Föstudaginn 05. apríl 2002, kl. 14:34:53 (7012)

2002-04-05 14:34:53# 127. lþ. 112.1 fundur 550. mál: #A kosningar til sveitarstjórna# (erlendir ríkisborgarar o.fl.) frv. 27/2002, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 127. lþ.

[14:34]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Af því að hv. þm. Halldór Blöndal hafði miklar skoðanir á þessu máli fyrr í umræðunni og ég tjáði mig um það atriði sem snýr að Norðurlandabúum, hvernig aðkoma þeirra að sveitarstjórnarkosningum hér á landi ætti að vera, vil ég bara árétta það sem ég sagði þá, og ég veit að hv. þm. gerði athugasemd við, að ég lít svo á að í rauninni sé því ekkert saman að jafna að Norðurlandabúar fái kosningarrétt hér til sveitarstjórnar þótt aðrar þjóðir Evrópusambandsins eða aðrar þjóðir yfirleitt fái hann ekki jafnfljótt. Ég get ekki séð neinn samjöfnuð þarna mögulegan eins og staðan er í dag. Miðað við þá miklu samvinnu sem verið hefur milli Norðurlandaþjóðanna frá upphafi er náttúrlega út úr kú að blanda þessu tvennu saman yfirleitt. Hér hefur verið minnst á vegabréfaréttindi, og síðan eru náttúrlega félagsleg réttindi af ýmsum toga sem hafa verið færð á milli Norðurlandanna.

Ég tel, herra forseti, að það hefði verið mjög æskilegt að í þessum lögum sem núna er verið að tala um að fara með í gegnum þingið hefði verið tekið á þessu atriði. Ég vona svo sannarlega að það takist næst þegar þessi mál verða tekin upp á hv. þingi en ég tel ekki neina ástæðu til að blanda því saman hvort við eigum að ná öðrum þjóðum inn í það en Norðurlandaþjóðum þegar um er að ræða að fá kosningarrétt með lögheimilinu.