Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Föstudaginn 05. apríl 2002, kl. 15:05:31 (7021)

2002-04-05 15:05:31# 127. lþ. 113.3 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, SJS
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 127. lþ.

[15:05]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það eru örfá efnisatriði sem ég ætla að koma inn á til viðbótar í umræðum um þetta mál sem er sennilega að komast á lokasprettinn til afgreiðslu. Við höfum áður rætt ýmislegt sem lýtur að vinnubrögðum við mál og um tilgangsleysi þess og rúmlega það, að eyða dýrmætum starfstíma Alþingis hér á síðustu dögum í að afgreiða virkjunarheimild til handa Landsvirkjun, að Landsvirkjun fái inn í lög heimildir til að reisa Kárahnjúkavirkjun þó að enginn kaupandi sé í sjónmáli að raforkunni og fyrir liggi að a.m.k. einhverra ára bið sé fram undan í þeim efnum ef að líkum lætur. Ég vísa til þess sem ég hef áður sagt um það mál og ætla ekki að orðlengja um það.

Það sem ég vil gera sérstaklega að umræðuefni í lokin, herra forseti, er svæðið sem þarna var ætlunin að bera niður með stórfelldri mannvirkjagerð. Ég leyfi mér að halda því fram að það yrði ein stærsta ákvörðun sem nokkurn tíma hefði verið tekin á Íslandi um breyttar landnytjar ef menn tækju ákvörðun um að fara inn á þetta stóra, ósnortna eða tiltölulega lítt snortna svæði sem miðhálendi landsins og hálendið norðan og norðaustan Vatnajökuls er. Sú ákvörðun yrði auðvitað ekki aftur tekin. Öllum er ljóst að ef ráðist yrði í jafnstórfellda breytingu á náttúrufari og jafnstórfellda mannvirkjagerð og bygging Kárahnjúkavirkjunar yrði, með tilheyrandi stíflum, miðlunarlónum, vegalögnum, raflínulögnum og annarri mannvirkjagerð, að ógleymdum hinum risavöxnu vatnaflutningum, þá væri um að ræða meiri röskun á náttúrufari í landinu en nokkrar aðrar framkvæmdir hafa nokkurn tíma valdið og yrði sjálfsagt bið á öðru eins, skyldi maður þá vona.

Hvað er hér í húfi, herra forseti? Jú, að mínu mati er það í húfi að Ísland á í þessu svæði, miðhálendi landsins og svæðinu norðan og norðaustan Vatnajökuls, einstaka perlu sem á sér fáa líka í veröldinni. Ég leyfi mér að halda því fram að annað eins samspil elds og ísa, gróðurvinja og eyðimarka og þarna er að finna, á að vísu nokkuð stóru svæði, nokkurra tuga þúsunda ferkílómetra svæði, sé hvergi annars staðar að finna í heiminum. Engin önnur lönd sem skarta stórfelldum jöklum geta teflt fram sambærilegum auðnum, gróðurvinjum og jarðfræðimyndunum, eldfjöllum, jarðhita, háhita og öðru slíku og þarna er hægt að finna á tiltölulega afmörkuðu svæði á hnettinum. Enda er það út af fyrir sig þekkt og vitað og viðurkennt að jarðfræðilegar og náttúrufarslegar aðstæður á Íslandi eru um margt einstakar í heiminum.

Ísland er einn öflugasti heiti reitur hnattarins, ungt land með mikla jarðmyndun og mikla landmótun í gangi. Í raun er hvergi sambærilegar aðstæður að finna og þó að finna megi flesta hluti sem finnanlegir eru á Íslandi einhvers staðar annars staðar í heiminum eru þeir yfirleitt ekki í sama umhverfi og tengdir sömu aðstæðum og hér eru.

Hugmyndir, herra forseti, hafa verið uppi um að stofna þarna þjóðgarð, einn af stærstu þjóðgörðum heimsins og þjóðgarð sem enginn vafi er á að yrði á heimsvísu, ekki bara evrópska vísu heldur á heimsvísu, einstæður að mörgu leyti. Ég held að það sé enginn vafi á að með kynningu slíks þjóðgarðs og þess sem hann hefði upp á að bjóða mætti bæta nýrri perlu við það sem Ísland hefur upp á að bjóða sem útivistarland, sem land fyrir ferðamenn og til þess að styrkja ímynd sína og kynna sig á vettvangi þjóðasamfélagsins.

Vatnajökull er stærsti jökull utan Suðurskautslandsins og Grænlands og heimskautajöklanna. Hann er um margt einstæður. Hann er þíðjökull þannig að í jökuljöðrunum er mikil virkni og stórár falla undan jöklinum. Það sem meira er, undir jöklinum eða í honum eru virk eldfjöll og virk háhitasvæði og þeirra sér sums staðar stað á yfirborði eins og í Kverkfjöllum. Þau hafa mikil áhrif á vötn sem falla frá jöklinum, samanber Grímsvatnahlaup og fleira sem nefna mætti í þessu sambandi.

Bara Vatnajökull einn og sér, jaðrar hans og það sem honum tengist, gerir svæðið einstakt í sinni röð. Í heiminum er leitun að annarri eins perlu og Skaftafell er. Samspil sands, gróðurs og jökuls er einstakt og hrífandi og margir ferðamenn sem þangað koma falla í stafi og eiga vart orð til að lýsa þeim dásemdum sem þar ber fyrir augu.

Ég ætlaði, herra forseti, að færa mig norður yfir jökulinn og fara kannski í smáhringferð um svæðið norðan, norðvestan og norðaustan jökulsins, þ.e. það sem í húfi er og menn fjalla gjarnan um sem stærsta ósnortna svæði Evrópu en ræða minna hvað þar er að finna.

Ósköp væri nú gaman, herra forseti, ef t.d. hæstv. iðn.- og viðskrh. og umhvrh. hefðu heiðrað okkur með viðveru sinni núna við lok þessarar umræðu.

Eigum við að hefja ferðalagið, herra forseti, við Tungnafellsjökul? Ég tel einboðið að í stækkuðum Vatnajökulsþjóðgarði, sem tæki ekki bara til jökulsins heldur jökuljaðranna og svæðisins, hálendisins, einkum norðan, norðvestan og norðaustan jökulsins, væri Tungnafellsjökull tekinn með. Austan Tungnafellsjökuls er Vonarskarð sem er sögufrægur staður eins og nafnið ber með sér og stórskáldin hafa ort um. Vestan Tungnafellsjökuls er sjálfur Sprengisandur og Fjórðungsalda og að sjálfsögðu ætti miðhálendisþjóðgarður eða Vatnajökulsþjóðgarður að taka til Sprengisands þó ekki væri nema af sögulegum ástæðum. En Sprengisandur er líka eyðimörk, merk eyðimörk á hánorrænum slóðum en hefur á sér öll einkenni eyðimarka. Það má reyndar segja að gildi um stærri hluta svæðisins í úrkomuskugganum norðan Vatnajökuls að það er ekki bara hitastig og loftslag sem veldur því að þar er snautt um gróður heldur líka sú staðreynd að þar er úrkoma afar lítil, merkilega lítil miðað við úthafsloftslag sem á Íslandi ríkir að öðru leyti.

Sé haldið norður Sprengisand og komið norður fyrir Háöldur er þar að finna þann blett landsins sem að mörgu leyti kemst næst því að vera miðja Íslands. Þar, á tiltölulega litlu svæði nálgast og nánast mætast upptök ekki minna en fjögurra stórvatna sem falla til þriggja hérðaða a.m.k. og tveggja landshluta. Þar falla vötn til Skagafjarðar, þar eru efstu drög Fnjóskár við Bleiksmýrardalsdrög og þar skammt norðaustur undan er Skjálfandafljót en sunnan við sandinn, sunnan til á sandinum eru upptakakvíslar Þjórsár, bergvatnskvísl Þjórsár. Þannig má á tiltölulega litlum bletti finna efstu drög allra þessara stóru fallvatna sem, eins og áður sagði, falla til a.m.k. þriggja héraða og tveggja landshluta. Eigi maður að reyna að staðsetja landfræðilega miðju Íslands held ég að menn komist býsna nálægt því með því að bera niður á sandauðnunum norður af Háöldum eða norðan til á Sprengisandi.

[15:30]

Þjóðgarðurinn ætti að mínu mati að taka til þessa svæðis og hann ætti að taka til efstu draga Fnjóskár og mörkin ættu síðan að sveigja til austurs og taka til Kiðagils, þótt ekki væri nema fyrir hið ágæta kvæði ,,Á Sprengisandi`` þar sem reiðmennirnir lýsa því að þeir vilji gefa vænsta klárinn sinn til að komast ofan í Kiðagil. Kiðagilsdrögin eru að sönnu ekki merkilegt gróðurlendi en ég held að við getum vel gert okkur í hugarlund feginleik reiðmanna sem koma ofan af Sprengisandi að fyrstu gróðurtorfunum og fá það sannreynt að þeir séu komnir að vötnum sem falla norður af.

Ef við höldum í norðaustur frá Tungnafellsjökli er þar sjálf Trölladyngja, einhver risavaxnasta smíð á landi hér, og að sjálfsögðu á hún að vera sem lengst innan þjóðgarðsmarkanna. Þar norðaustur af er Askja með Öskjuvatni og Víti, og Ódáðahraunið norður undan og þá er stutt til Herðubreiðar og Herðubreiðarlinda. Ef haldið er áfram norður með Jökulsá er komið í Grafarlönd og síðan áfram niður með ánni í þjóðgarðinn Jökulsárgljúfur þar sem er hann Dettifoss þar sem ,,aldrei á grjóti gráu / gullin mót sólu hlæja blóm`` eins og skáldið kvað.

Í stefnu suðaustur af Tungnafellsjökli er Bárðarbunga, sú volduga smíð í Vatnajökli, og aðeins lengra til norðausturs er svo Dyngjujökull sjálfur með hinum miklu aurum Jökulsár fram undan. Þar til austurs og suðausturs liggja Kverkfjöll sem eru ein magnaðasta náttúrusmíð á landi hér. Þar er gríðarlegur jarðhiti og þar má finna ótrúlega hluti, háhitasvæði í hartnær 2.000 m hæð yfir sjó, Hveradali, og sjóðandi vatn sem bræðir ís af jöklinum.

Norður undan Kverkfjöllum liggur Krepputunga sem lengi var einskismannsland, heimsótt eingöngu af útilegumönnum, stöku sauðkindum og svo hreindýrum eftir að þau komu til sögunnar. Þar liggja Hvannalindir og þar höfðu útilegumennirnirr Halla og Eyvindur bólsetu, a.m.k. Eyvindur, og hefur sennilega verið einna auðnarlegastur staður af öllum þeim sem hann dvaldi á, Hvannalindirnar. Þar skammt undan er gróðurvinin Fagridalur, vestast á Brúaröræfum geri ég ráð fyrir að megi kalla það, og norðvestur undan við Jökulsá, þar sem nú hefur verið brúað, liggja fjöllin Upptyppingar sem einhverjir kannast við að hafa séð á málverkum eftir Stefán Jónsson frá Möðrudal en hann málaði gjarnan á Herðubreiðarmyndir sínar einhverja hluta Upptyppinganna, benti á og sagði: ,,Þarna er hún Herðubreið og þarna eru Upptyppingarnir.`` Þeir sem vilja fá sér málverk eftir þann mikla listamann skyldu hyggja að því hvort ekki mætti á því greina til viðbótar við fjalladrottninguna sjálfa einhvern hluta af Upptyppingunum, en þessi kennileiti setja mjög svip sinn á útsýni af þeim slóðum úr Möðrudal og nágrenni þar sem Stefán ólst upp.

Norðaustur af Upptyppingunum liggur Arnardalur sem er ein af mögnuðustu hálendisgróðurvinjum þessa lands. Samkvæmt sögnum flutti þangað bóndinn af Jökuldal og bjargaði fjölskyldu sinni undan plágu mikilli fyrr á árum.

Ef við höldum svo þaðan til austurs eða suðausturs erum við stödd á hinum eiginlegu Brúaröræfum sem eru magnað hálendissvæði, tekur í raun við til suðurs af Jökuldalsheiðinni, geymir margar perlur og nær að Jökulsá á Brú og hinum rómuðu Dimmugljúfrum. Erum við þá heldur betur farin að nálgast svæði það sem þetta mál varðar, áform um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal með svonefndri Kárahnjúkavirkjun.

Syðst á Brúaröræfunum eða suður af þeim er friðlandið í Kringilsárrana sem var að sumu leyti eins ástatt um og Krepputunguna lengi vel. Þangað voru litlar samgöngur eins og gildir einnig um Kverkárnes sem er undir norðvesturjaðri Brúarjökuls. Þetta eru sérstakir og merkilegir staðir. Kringilsárraninn hefur kannski það fram yfir annað á þessum slóðum að hann geymir einstakar og einstæðar náttúruminjar þar sem eru Hraukarnir og hið merkilega samspil gróðurlands og jökuls sem þeir eru til marks um.

Ef við förum svo yfir Jöklu, segjum að við leggjum lykkju á leið okkar og göngum fyrir hana uppi á Brúarjökli, ber okkur yfir á Vestur-Öræfi. Þar gnæfir fjalladrottningin, ef svo má kalla Snæfellið einnig eins og Herðubreið, yfir öllu. Austan hennar eru Eyjabakkar og norður af Fljótsdalsheiðin. Austan Eyjabakkanna komum við á Hraun og síðan eru til austurs og suðausturs hin ægifögru og sérstæðu Lónsöræfi og svo áfram, herra forseti, eftir því sem tíminn leyfði okkur eða við vildum rekja okkur hringinn um jökulinn.

Ég læt hér staðar numið og geymi e.t.v. til betri tíma að fylgja jöklinum með austur- og suðurjaðrinum en þar er ekki síður margar og einstæðar perlur að finna.

Það sem ég hef verið að reyna að gera, herra forseti, er að draga upp eftir minni þetta einstaka svæði, þetta stóra, lítt- eða ósnortna svæði sem skartar fjölmörgum einstæðum náttúruperlum og myndar auðvitað allt eina heild. Hálendið umhverfis Vatnajökul norðan, norðvestan og norðaustan allt að byggð er auðvitað ein stór samstæð og einstæð heild og verður að skoðast sem slík. Mér er til efs, eins og ég sagði áður, herra forseti, að nokkurs staðar á byggðu bóli eða öllu heldur óbyggðu sé að finna sambærilega hluti. Þó að víðar séu eldfjöll, víðar hverir, víðar jöklar, hálendisgróðurvinjar og eyðimerkur held ég að það samspil sem þarna er að finna milli þessara þátta sé svo algjörlega einstætt að á herðum okkar Íslendinga hvíli mikil ábyrgð að vera vörslumenn þessa svæðis.

En þetta svæði býður líka upp á, herra forseti, gríðarlega möguleika. Ég held að þeir séu í hópi þess stærsta sem framtíðin kann að bera í skauti sér fyrir Íslendinga þannig að fáar ef nokkrar gersemar okkar gætu átt eftir að reynast magnaðri og verðmætari en einmitt þetta stóra, ósnortna hálendissvæði með öllum sínum perlum ef við berum gæfu til að gæta þess og nýta það skynsamlega. Um það snýst auðvitað þetta mál, herra forseti, hvort sú ráðstöfun sem hér hefur verið á dagskrá, að ráðast í þessar framkvæmdir, sé skynsamleg eða hvort við eigum að leggja þarna aðrar áherslur og huga að annars konar nýtingu og varðveislu þessa svæðis.

Ég held, herra forseti, að við getum t.d. velt fyrir okkur hvers konar aðdráttarafl, segull og gersemi Mývatnssvæðið hefur verið okkur Íslendingum við uppbyggingu ferðaþjónustu okkar. Það er ekki ýkja langt síðan gerð var skoðanakönnun og erlendir ferðamenn spurðir að því hvað það væri sem drægi þá til Íslands. Yfir 90% sögðu að þeir kæmu til Íslands vegna náttúrunnar og meira en helmingur af þessum ferðamönnum, ef ég man rétt, nefndi ekki bara Mývatn heldur fór þangað líka. Það segir sína sögu, og ég held að ekki sé um það deilt að Mývatn og Mývatnssvæðið hafa haft vinninginn sem einstakar perlur og aðdráttarafl fyrir ferðamenn.

Hvað mundi þá ekki mega segja, ef vel væri að verki staðið, um þjóðgarð á heimsvísu sem væri algerlega einstakur í sinni röð? Að mínu mati væri létt verk að kynna hann þannig umheiminum að frekar þyrfti að hafa áhyggjur af ágangi sem þar gæti skapast en hinu að hann drægi ekki að nóg af ferðamönnum, og þá alveg mögulega jafnt vetur sem sumar þó að því séu auðvitað ákveðin takmörk sett, m.a. af öryggisástæðum, hversu hyggilegt væri að draga fjölda ferðamanna inn á þetta svæði um hávetur. Vissir möguleikar gætu tengst líka jökuljöðrunum að sunnan og austan en líka þjóðgarðsmiðstöðvum sem sjálfgefið væri að reisa í útjaðri byggðar og við mörk þjóðgarðsins fyrir norðan og austan.

Ferðaþjónustan, herra forseti, var næststærsta atvinnugreinin, mælt í gjaldeyristekjum, á árinu 2000 ef ég man rétt frekar en á árinu 1999, fór þá fram úr stóriðjunni og færði íslenska þjóðarbúinu meiri gjaldeyristekjur, næstar á eftir sjávarútveginum. En það er fleira en hagsmunir þeirrar atvinnugreinar sem við eigum að hyggja að. Útivist landsmanna sjálfra gefur því gildi að búa í landinu, og það að varðveita landið og leyfa því að halda aðdráttarafli sínu skiptir miklu máli í því sambandi. Margir nefna sambúðina við landið sem ástæðu þess að þeir velja að búsetja sig hér frekar en að nýta menntun sína og starfskrafta annars staðar, möguleikarnir sem hér eru til einstæðrar útivistar ríði þar baggamuninn.

Ég nefni í þriðja lagi það sem við þurfum að hyggja að, orðstír Íslands og ímynd sem menn viðurkenna í æ ríkari mæli í nútímanum að er verðmæti í sjálfu sér. Í jákvæðri og vel kynntri mynd af landinu er fólgin verðmæt fjárfesting sem við þurfum að huga að og megum ekki spilla. Ýmsar þjóðir leggja mikla fjármuni í það eitt að reyna að kynna sig með jákvæðum formerkjum gagnvart umheiminum, ekki bara vegna ferðamennsku heldur einnig og ekki síður vegna annarrar atvinnustarfsemi, vegna sinna almennu útflutnings- og viðskiptahagsmuna eða jafnvel vegna þess að mönnum er ekki sama um orðstír sinn í heiminum. Menn vilja að þeir séu vel kynntir, sem eðlilegt er, og menn geta jafnvel séð ákveðna hagsmuni í að af þeim fari gott orð með tilliti til pólitískra áhrifa og möguleika á að gæta hagsmuna sinna í alþjóðasamstarfi.

Fyrir skömmu, herra forseti, rakst ég í tveimur tímaritum á viðtöl við unga, þekkta Íslendinga sem bæði hafa tengst spurningum um ímynd eða orðstír Íslands og álit með ýmsum hætti. Ég er hér að vitna í tímaritið ,,Ský`` sem við sem mikið erum á ferðalögum sjáum stundum í sætisbökum flugvélastóla. Þar hafa með skömmu millibili birst viðtöl við einstaklingana Lilju Pálmadóttur og Ólaf Jóhann Ólafsson. Báðum þessu mætu einstaklingum hefur orðið tíðrætt um ímynd Íslands, orðstír Íslands og þau verðmæti sem fólgin séu í því að landið sé kynnt með jákvæðum hætti, þar á meðal og ekki síst hvað varðar umhverfi og náttúru. Í reynd er ég sannfærður um að tilfinning manna, sem á annað borð vita að Ísland er til og vita eitthvað um það, sé mjög samofin vitneskjunni um að hér sé sérstæð og einstök náttúra, fegurð, víðáttur og annað í þeim dúr sem eftirsóknarvert geti verið að njóta.

Þessi ímynd smitar yfir í útflutningshagsmuni okkar þegar kemur að matvælum og öðrum vörum. Þessa ímynd nefna báðir þessir ágætu einstaklingar sem hluta af þeim framtíðarverðmætum sem við þurfum að hlúa að, í öðru tilvikinu vegna mögulegra ávinninga okkar á sviði vatnsútflutnings og í hinu tilvikinu út af skyldum hlutum. Auðvitað má nefna aðra nýtingarmöguleika og -kosti sem tengjast sérstökum aðstæðum þessa svæðis. Þarna er að finna sérstæðan hálendisgróður og -grös sem eiga varla sína líka annars staðar í heiminum, t.d. fléttugróður og slíkar fremur sjaldgæfar tegundir með einstaka efnasamsetningu, ómengaða vegna þess að hér er lítil mengun af iðnaðarlofti, enn sem komið er a.m.k., og sem betur fer. Þessu fengu Íslendingar að kynnast, t.d. eftir Tsjérnóbíl-slysið þegar eftirspurn eftir m.a. fjallagrösum á Íslandi rauk allt í einu upp af því að þau voru geislamenguð á hálendissvæðum Skandinavíu þar sem þau höfðu áður verið tínd, og voru verðmætt hráefni til lyfjagerðar og fleiri hluta. Nefni ég hér fjallagrös, sem stundum hefur borið á góma í þessari umræðu, en það er auðvitað fleira verðmætt sem við getum sótt í gróðurríkið og augu manna eru sem betur fer að opnast fyrir því.

Fjöldi lítilla fyrirtækja hefur sprottið upp á sviði lyfja-, heilsuvöru- og snyrtivöruframleiðslu og er þessi geiri ein mesta vaxtargreinin í íslensku atvinnulífi. Það er gaman fyrir hæstv. iðn.- og viðskrh., ráðherra nýsköpunarmála í atvinnulífinu, að það sé nefnt hér að eitt af því ánægjulega við vöxt þessara greina er að hann er mikið drifinn áfram af hugviti og dugnaði kvenna. Allnokkur smá en vaxandi fyrirtæki sem konur hafa stofnað eru í mikilli sókn á útflutningsmarkaði með lyfja-, heilsuvöru- og snyrtivöruframleiðslu. (Iðnrh.: Ég veit þetta.) Hæstv. ráðherra veit þetta og þá veit væntanlega hæstv. ráðherra einnig að hráefnin eru m.a. sótt í hið sérstæða gróðurríki landsins, og það er líka og aftur ímyndin um hreina og ósnortna náttúru sem þarna er verið að selja.

Að síðustu, herra forseti. Við þurfum ekki bara af hagsmunatengdum ástæðum að ganga hægt um gleðinnar dyr og gæta vel að náttúru landsins og umhverfi. Náttúran hefur líka gildi í sjálfri sér og okkur ber að viðurkenna rétt hennar. Lífið hefur rétt og gildi, og öll náttúran. Í sjálfu sér er ekki mikið tjón eða líklegt að það sé mikið tjón í efnahagslegum skilningi að geirfuglinn er útdauður. Ég reikna ekki með að af honum væru stórfelldar nytjar þó að hann væri enn til. Væntanlega væri hann þá friðaður honum til varðveislu. En samt er eitthvað sem gerir það að verkum að við skynjum í brjóstinu að það var skaði að geirfuglinum var útrýmt. Það er vegna þess að við finnum að náttúran á sinn rétt, lífríkið á sinn rétt og við eigum að hlúa að því og varðveita það og leyfa því að njóta sín.

Maðurinn er ekki herra náttúrunnar heldur hluti af henni. Þess vegna, herra forseti, tel ég að við eigum núna að leggja þessi áform á hilluna og snúa okkur m.a. að því að móta framtíðaráherslur um friðlýsingu og verndun þessa stóra svæðis. Þar ber að taka stefnuna á heimsþjóðgarð. Ég teldi mjög athugandi að sá þjóðgarður yrði bæði evrópskur í þeim skilningi að leitað yrði samstarfs við evrópska aðila um uppbyggingu hans og varðveislu en hann yrði líka heimsþjóðgarður. Þetta svæði ætti að mínu mati að tilnefnast til Sameinuðu þjóðanna sem sameiginlegar gersemar mannkynsins sem beri að hlúa að til viðbótar Þingvöllum og fleiri svæðum sem ýmist hefur þegar verið ákveðið að tilnefna þangað eða er til skoðunar.

Eitt enn, að lokum, sem þarf að setja á dagskrá og vinna að er friðlýsing vatnasvæða. Það vantar hér að menn taki vatnasvæði með sambærilegum hætti til skoðunar og menn hafa áður unnið með landfræðilega afmörkuð svæði og einstakar náttúruperlur. En vatnasvæði, t.d. stórfljóta eins og Jökulsár á Fjöllum og Kreppu, eru náttúrufarsleg heild. Þess vegna á að skoða slík svæði frá upptökum til ósa, og tvímælalaust ber að friðlýsa nokkur verðmætustu og sérstæðustu vatnasvæðin á næstu árum. Þar nefni ég, fyrir utan Jökulsá á Fjöllum og Kreppu og auðvitað allt það vatnasvæði, Hvítá með Gullfossi. Ég vildi gjarnan sjá fleiri sérstæð fallvötn koma þar a.m.k. til skoðunar eins og Skjálfandafljót, og mætti mörg fleiri til taka.

Herra forseti. Þetta held ég að væri þarfari iðja en að nudda áfram með þetta frv. í tilgangsleysi þar sem ljóst er að öll þessi áform eru komin í allt annað samhengi en áður var, þar af leiðandi tilgangslaust. Og auðvitað er það ekki bara tilgangslaust heldur beinlínis efnislega rangt að vera að afgreiða þessa lagaheimild nú. Ég vona, og reyndar spái því að sú von mín rætist og ég reynist hafa rétt fyrir mér í því, að nú skapist tóm til að taka þessi mál nýjum tökum svo að stórfelld nýtingaráform af þeim toga sem hér hafa verið á dagskrá verði ekki uppi á borðum á allra næstu missirum og árum. Þá eiga menn tvímælalaust að nota þann tíma til að fara yfir hlutina á þann hátt sem ég hef verið að reifa.