Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Föstudaginn 05. apríl 2002, kl. 15:43:37 (7025)

2002-04-05 15:43:37# 127. lþ. 113.3 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 127. lþ.

[15:43]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það getum við prýðilega gert en það þarf ekki að kosta eins miklar fórnir og hér hefur verið ætlunin að leggja í. Stundum stöndum við frammi fyrir því að við getum ekki gert hvort tveggja. Við getum ekki virkjað og varðveitt einstakar náttúrugersemar eins og Kringilsárrana, Lindir og gróðurlendin út með Jökulsá á Brú niður að Kárahnjúkum og Dimmugljúfur. Við getum heldur ekki bæði varðveitt Lagarfljót og sullað Jökulsá á Brú yfir í og gegnum það.

Þó að við leitum að sjálfsögðu bestu samræmingar þessara sjónarmiða stöndum við stundum frammi fyrir einföldum ákvörðunum: Ætlum við að varðveita viðkomandi náttúruverðmæti eða ekki? Taka má ýmis fræg og þekkt dæmi úr sögunni þar um. Ég hef nefnt hér Rauðhólana við Reykjavík sem menn voru langt komnir með að moka upp einu sinni, sáu svo að sér og hættu þegar tjónið var auðvitað orðið mikið en því var þó bjargað sem eftir var. Slík dæmi eru augljós og gagnsæ um að við getum ekki alltaf gert hvort tveggja.

Þar koma kannski ákveðnar markalínur í ljós í umræðum um þessi mál, þegar menn standa frammi fyrir tiltölulega klárri ákvörðun um að fórna beinlínis einhverjum tilteknum náttúruverðmætum á altari meintrar velsældar, starfa o.s.frv. Þar geta menn eðlilega orðið ósammála, það hafa menn verið í þessu máli og ég held að menn séu það enn.