Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Föstudaginn 05. apríl 2002, kl. 16:12:30 (7030)

2002-04-05 16:12:30# 127. lþ. 113.3 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 127. lþ.

[16:12]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að þetta kemur við viðkvæman blett hjá hv. þm. því sú byggðaáætlun sem hefur komið fram hefur reynst þannig (HjÁ: Hún er þó til staðar.) að ekki einu sinni þingflokkar stjórnarflokkanna hafa viljað veita henni blessun sína. Atvinnuþróunarfélögin standa meira að segja uppi fjárvana vegna þess að það var ekki hægt að veita nægilegt fjármagn til þeirra á sl. hausti á fjárlögum. Þetta er því í fullkomnu skötulíki.

Þegar rætt er um það núna, hvernig eigi að bregðast við og sýna Austfirðingum að komið verði til móts við þörfina fyrir verkefni þar --- hæstv. iðnrh. kom inn á einmitt að það þyrfti að bregðast við til þess að draga úr hættu á fólksflótta úr héraðinu --- hefur ríkisstjórnin, ráðherrar Framsfl., þingmenn Framsfl., þingmenn Norðurl. e. úr Framsfl., ekkert fram að færa. Þeir hafa ekkert fram að færa og segja: Áfram verður barist fyrir því að fá þetta álver. Sú framkoma finnst mér ábyrgðarlaus. Mér finnst hún ábyrgðarlaus og ósanngjörn.

Þess vegna er ég hér. Við erum ekki í meiri hluta hér á Alþingi, því miður. En við getum hvatt meiri hlutann og hæstv. ráðherra Framsfl. til að horfast í augu við veruleikann og sýna raunverulegan dug gagnvart Austfirðingum svo og í byggðamálum landsmanna almennt.

Ég vona, þjóðarinnar vegna, að þeir láti af þessari álnauðhyggju sinni, vakni af þessum bráðræðislegu stórvirkjunardraumum og snúi sér að íslenskum raunveruleika.