Kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 10:33:54 (7041)

2002-04-08 10:33:54# 127. lþ. 114.10 fundur 371. mál: #A kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla# (dreifing ösku, kirkjugarðaráð o.fl.) frv. 32/2002, JB
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[10:33]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Þetta frv. er um að heimila líkbrennslu og að dreifa ösku og brenndum líkum um landið, reyndar samkvæmt ákveðinni reglugerð sem ráðherra setur. Ég tel varhugavert að opna fyrir slíkar heimildir. Það er svo sem skiljanlegt í einstaka tilvikum að einstaklingar sem hafa tekið miklu ástfóstri við lönd eða svæði vilji láta dreifa ösku sinni þar yfir. Við höfum heyrt af ýmsum óskum sem bornar hafa verið fram, t.d. um að ösku af einstaklingi sé dreift yfir Breiðafjörð, dreift á ákveðnum stað á hálendi Íslands eða einhvers staðar á slíkum stöðum sem viðkomandi ber mikinn hug til.

Mér finnst samt að ekki eigi að opna fyrir svona heimildir. Við höfum ákveðna siði og ákveðnar reglur í sambandi við bæði frágang og jarðsetningu á líkum. Ef viðkomandi vill láta brenna sig þá er það í sjálfu sér eðilegur kostur og þá er hægt að jarðsetja þær jarðnesku leifar eftir öðrum reglum en að dreifa þeim um. Þetta býður heim mörgum álitamálum um hvar eigi að staldra við, hvar eigi að dreifa þessari ösku.

Ég ætla reyndar ekki að vitna neitt til Eyrbyggju þar sem lýst er hvernig aska af látinni manneskju fór í bæjarlækinn og kýrin sem gekk með kálfinn drakk öskuna og úr varð síðan nautið Glæsir.

(Forseti (ÍGP): Má ég biðja hv. þm. um að gefa betra hljóð í salnum.)

Virðulegi forseti. Ég vil í stuttu máli ítreka að ég tel að við eigum að halda okkar tiltölulega þröngu ákveðnu reglum um meðferð á líkum og að ekki eigi að opna hér fyrir möguleika á því að dreifa þessu um land eða sjó eða vötn. Þó svo að það sé falið í vald hæstv. dóms- og kirkjumrh. að setja um þetta reglur þá veit maður ekki hvert það ber þegar út í þá leið verður farið. Mér vitanlega hafa ekki verið slík vandamál í kringum greftrunarsiði á Íslandi að þau krefjist þess gerðar séu svo róttækar breytingar sem hér eru lagðar til. Ég tel ekki ástæðu til þess og ég er andvígur því að að veita heimild til þess að dreifa ösku af látnu fólki yfir lönd og vötn og sjó eða hvar annars staðar sem menn vilja dreifa henni. Ég tel að við eigum að halda okkur við tiltölulega þrönga og ákveðna greftrunarsiði og að það sé okkur til miklu meiri farsældar en að opna fyrir eitthvað sem við vitum ekki hvert leiðir okkur, að ástæðulausu, gjörsamlega að ástæðulausu, virðulegi forseti.