Kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 10:47:00 (7047)

2002-04-08 10:47:00# 127. lþ. 114.10 fundur 371. mál: #A kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla# (dreifing ösku, kirkjugarðaráð o.fl.) frv. 32/2002, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[10:47]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég ber enga virðingu fyrir nálgun hv. þm. Jóhanns Ársælssonar að málinu --- síður en svo. Þetta mál snýst ekki um mengun, öskufok eða eitthvað þess háttar. Ég ber enga virðingu fyrir slíkri nálgun að málinu.

Fyrir mér er þetta bæði menningarlegt, trúarlegt og siðferðilegt mál og ég hef skoðun á því. Ég tel að það eigi ekki að opna fyrir þessa meðferð við lokagreftrun á dánu fólki. Hvað varðar siðferðilega, menningarlega og trúarlega afstöðu mína til málsins finnst mér það ekki passa. Ég tel eðlilegra að fólki sé búinn lokalegstaður á þar til völdum stöðum. Ég er þess vegna á þeirri skoðun að þetta frv., þar sem gert er ráð fyrir að ösku sé dreift, hvort sem er yfir hafsvæði, landsvæði eða vatnasvæði, í byggð eða óbyggðum --- það er ekki í takt við siðferðislega, menningarlega eða trúarlega afstöðu mína til þessara mála. Ég frábið mér því að umræðan sé leidd inn á eitthvert mengunar- eða öskufoksstig.