Rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 11:01:51 (7053)

2002-04-08 11:01:51# 127. lþ. 114.19 fundur 489. mál: #A rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta# (EES-reglur) frv. 30/2002, Frsm. VE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[11:01]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. frá efh.- og viðskn. um frv. til laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu.

Frv. felur í sér heildarlöggjöf um þetta svið. Nefndin fjallaði um þetta á nokkrum fundum, sendi málið til umsagnar og fékk til sín á fund þá aðila sem höfðu látið sig málið varða. Frv. er lagt fram í því skyni að innleiða í íslenskan rétt tilskipun Evrópuþingsins og Evrópuráðsins um tiltekna lagalega þætti þeirra mála og þeirrar starfsemi. Meginreglan er sú að um rafræn viðskipti og rafræna þjónustu gildi sams konar meginreglur og gilda á öðrum sviðum viðskipta. Þó er tekið tillit til séraðstæðna á því sviði.

Nefndin leggur til smávægilegar breytingar á frv. Í fyrsta lagi er lagt til að þegar innlendir aðilar eru að beina rafrænni þjónustu eða gefa íslenskum neytendum upplýsingar um verð á rafrænni þjónustu þá skuli skattar innifaldir í verði. Þetta er fyrst og fremst til þess að tryggja samræmi milli sölu á rafrænni þjónustu og auglýsingum á rafrænni þjónustu við það sem almennt gildir á Íslandi. Þannig er innlendum aðilum sem selja þjónustu til útlanda ekki skylt að taka fram með skatta en þetta á eingöngu við þegar íslenskir aðilar selja íslenskum neytendum rafræna þjónustu að þá skuli skattar innifaldir í verði.

Síðan er við 9. gr. gerð smábreyting þar sem hnykkt er á ákvæðum um upplýsingaskyldu við pöntun og þar sem spurningin er að upplýsa hvernig samningur verði aðgengilegur fyrir neytandann.

Síðan er í þriðja lagi ákveðin breyting á tilvísun til þess að leiðrétta.

Þetta eru ekki miklar breytingar, virðulegi forseti, á svo viðamiklu frv. og ég vil lýsa ánægju minni með hvað frv. er vel unnið og það hefur greinilega farið til umsagnar og meðhöndlunar hjá þeim aðilum sem málið varðar áður en það var lagt fram og þess vegna eru ekki gerðar veigamiklar breytingar á frv. af hálfu nefndarinnar.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef nú rakið. Undir nál. skrifa allir nefndarmenn án fyrirvara.