Flokkun og mat á gærum og ull

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 11:19:27 (7059)

2002-04-08 11:19:27# 127. lþ. 114.20 fundur 293. mál: #A flokkun og mat á gærum og ull# (ullarmat) frv. 48/2002, MF
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[11:19]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Það kemur stundum fyrir í sölum Alþingis að hér er rætt um mál sem ekki verður séð að eigi beint erindi hingað inn. Lög sem við höfum búið við um langan tíma eru að hluta til úrelt miðað við það umhverfi sem við búum við á landinu, m.a. rekstrarumhverfið. Ég verð þó að segja að ég fagna því sérstaklega að þarna er verið að taka út einn þátt, starf ullarmatsmanns, þ.e. að starfsemi þess embættis sé greidd úr ríkissjóði en eins og fram kemur í frv. og áliti fjárlagaskrifstofunnar er gert ráð fyrir að þarna sparist árlegur kostnaður ríkissjóðs vegna verkefnisins um 8 millj. kr.

Ég sé ekki að þetta sé verkefni ríkisins. Það er hægt að setja rammareglur um hvernig eftirlitinu skuli háttað en það hlýtur fyrst og fremst að vera Bændasamtakanna, afurðastöðva og söluaðila að sjá til að þessu eftirliti sé framfylgt eðlilega með fullnægjandi hætti. En það er aldeilis ekki framkvæmdarvaldsins eða ríkisins að greiða fyrir þetta eftirlit. Ég held að það sé löngu tímabært að þetta frv. komi fram og sé afgreitt og er mjög stolt af þeirri afstöðu sem fulltrúar Samfylkingarinnar í þessari nefnd hafa tekið.