Flokkun og mat á gærum og ull

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 11:21:28 (7060)

2002-04-08 11:21:28# 127. lþ. 114.20 fundur 293. mál: #A flokkun og mat á gærum og ull# (ullarmat) frv. 48/2002, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[11:21]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ein ástæða þess að leggja á niður þetta embætti og í raun einu rökin fyrir því er kostnaðurinn við eftirlitið. Eftirlitsgjöld eiga að standa undir viðkomandi embætti og þar sem verð á ull er mjög lágt þá hefur ekki verið talið hægt að leggja á eftirlitsgjöld. Þar af leiðandi hefur fjármagn verið tekið úr kjötmatsgjaldi. En þar með er ekki sagt að þetta embætti sé ekki mikilvægt. Við verðum auðvitað að forða því að allt fari í sama farið og var í kringum 1990 þegar mat á ull var í óefni komið.

Ég vil endurtaka, herra forseti, að það er mjög mikilvægt að skýr ákvæði séu um menntun ullarmatsmanna og að mínu mati ætti það að verða skilyrt að Ullarþvottastöðin í Hveragerði sjái um nám þessara manna. Þar er þekkingin fyrir hendi og þar ætti nám og þjálfun ullarmatsmannanna að geta farið fram. Þetta á ekki heima í þessu frv. en væri mjög eðlilegt að taka upp í reglugerð og kveða fast á um að það sé ekki bara heimilt að hafa þessa menn heldur skuli ullarmatsmenn ráðnir til starfa. Skýr ákvæði þarf um menntun þeirra og hvernig hún verði tryggð.