Flokkun og mat á gærum og ull

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 11:25:39 (7064)

2002-04-08 11:25:39# 127. lþ. 114.20 fundur 293. mál: #A flokkun og mat á gærum og ull# (ullarmat) frv. 48/2002, JB
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[11:25]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. til laga um breytingar á lögum um flokkun og mat á gærum og ull, með síðari breytingum, er hér til 2. umr. Ég hef hlýtt á bæði framsögu hv. formanns landbn., Drífu Hjartardóttur, og einnig aðrar ræður hér.

Það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að hér er bara verið að leggja til breytingar á gildandi lögum. Einstakir þingmenn geta haft skoðun á því hvort setja eigi svo nákvæm lög um þennan málaflokk, um flokkun og mat á gærum og ull, en það er annað mál. En hér er aðeins verið að leggja til breytingar á mjög afmörkuðum greinum sem lúta fyrst og fremst að kostnaði, kostnaðarþátttöku ríkisins í ákveðnum þætti sem að þessu lýtur. Hér er ekki verið að breyta lögum um flokkun og mat á gærum og ull eins og skilja mátti af ræðu hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur. Hún talaði um að Bændasamtökin gætu tekið þessi mál í sínar hendur og gert það. Ég er sammála hv. þm. í því að Bændasamtökin eru ábyggilega fyllilega fær um að gera það.

Ég hefði á ýmsan hátt talið eðlilegra að öll lögin um flokkun og mat á gærum á ull, allur lagabálkurinn eða öll þessi lög, hefðu verið tekin til endurskoðunar til að vita hverju mætti breyta og færa af verkefnum út úr lagasetningu og inn í umgjörð atvinnugreinarinnar sjálfrar. Ég er sammála hv. þm. þar. En hér er aðeins til umræðu lítil breyting á lögunum. Það er vert að hafa í huga þegar fjallað er um málið.

Mér sýnist að hér sé fyrst og fremst verið að færa til kostnað. Hér er lagt til að leggja niður opinberan, eða ríkisgreiddan, eftirlitsmann með ull og gærum sem nú starfar á grundvelli 6. gr. þessara laga. Síðan er kostnaðurinn færður yfir á viðkomandi afurðastöðvar eftir því sem þær telja þörf á. Hér er því í sjálfu sér ekki verið að fella burt kostnað úr þessum ferli heldur er verið að færa hann til. Ég held að það sé mikilvægt að hv. þingmenn geri sér grein fyrir því. Þarna er í sjálfu sér ekki um að ræða sparnaðaraðgerð ef menn hafa ... (Gripið fram í: Fyrir ríkissjóð.) Já, en ekki fyrir ferilinn í heild sinni. Það er ekki verið að tryggja að lokaverði vörunnar eða kostnaði af meðferð vörunnar verði breytt. Þarna er bara verið að færa kostnað yfir á bændur. Vafalaust munu þeir taka á sig aukinn kostnað af hálfu afurðastöðvanna sem fellur vegna þessa mats. Ég held að það sé gott að hv. þingmenn geri sér grein fyrir því hver tilgangurinn raunverulega er með því sem þarna er á ferð.

En ég er á ýmsan hátt sammála því að færa eigi aukin verkefni til atvinnugreinarinnar sjálfrar en ég er ekki sammála því í sjálfu sér að ríkið eigi stöðugt að skorast undan sameiginlegum ábyrgðum eða kostnaði sem nauðsynlegt getur verið að ríkið beri gagnvart umgjörð eins atvinnuvegar. Ég vek athygli á að hér er aðeins verið að taka einn mjög afmarkaðan þátt út úr þessum lögum um flokkun og mat á gærum og ull en ekki verið að endurskoða lögin í heild sinni eða að athuga hvaða verkefni megi færa út úr þessum lögum og inn til atvinnugreinarinnar. Mér finnst mikilvægt að hv. þingmenn átti sig á því.

[11:30]

Ég vil svo líka taka undir orð hv. þm. Þuríðar Backman, sem lagði áherslu á að það væri ekki sleppt út þeirri áherslu eða þeirri kröfu til þekkingar þeirra aðila sem væru að fjalla um mat og gæðastuðla á þessum vettvangi. Það er ekki ástæða til þess að fella eða rýra áherslur hvað því viðvíkur.

Ég vildi líka aðeins víkja orðum til hv. formanns landbn. varðandi lagabreytingar um flokkun og mat á ull og gærum. Hvernig samrýmast þær þeim ströngu gæðareglum sem nú á að innleiða í svokallaðri gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu. Ég tel reyndar að þar sé allt of langt gengið, þar sem verið er að setja nánast hvert skref í framleiðslu sauðfjárafurða undir lögregluauga. Hér er samt verið að fjalla um tiltekinn þátt í gæðaferli sem framleiðslan þarf að hafa hliðsjón af.

Virðulegi forseti. Ég kom fyrst og fremst í stólinn til að vekja athygli á því að það er ekki verið að endurskoða lögin um flokkun og mat á gærum og ull í heild sinni, sem hefði kannski verið full þörf á, að skoða hinn lagalega bakgrunn að baki flokkun og mati á gærum og ull og reglugerðarskilyrðum landbrn., hvort færa mætti einhverja þætti þarna í auknum mæli út úr lagaumgjörð og inn í atvinnugreinina sjálfa. Í öðru lagi felur frv. í sér að í rauninni er verið að fella niður um 8 millj. kr. kostnað sem ríkið hefur borið af samræmdri ullarmatsvinnu. Ábyrgðin á þeim kostnaði og þeirri vinnu er færð til afurðastöðvanna og þannig er ekki ljóst að þetta leiði í sjálfu sér til minnkandi kostnaðar í heild sinni, heldur virðist um það að ræða að færa kostnað frá ríkinu til framleiðanda.

Ég vildi bara draga þetta inn í umræðuna en ég teldi fulla ástæðu til að lögin um flokkun og mat á gærum og ull hefðu verið endurskoðuð í heild sinni úr því að verið var að opna lagabálkinn.