Flokkun og mat á gærum og ull

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 11:40:02 (7072)

2002-04-08 11:40:02# 127. lþ. 114.20 fundur 293. mál: #A flokkun og mat á gærum og ull# (ullarmat) frv. 48/2002, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[11:40]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú rétt að benda hv. þm. Sigríði Ingvarsdóttur á að engu að síður er áfram í lögunum kæruferli til að kæra mat ef menn eru ekki sáttir við það. Það kæruferli er til staðar og getur í sjálfu sér kostað fjármuni. Það kæruferli er áfram á ábyrgð landbrh., þ.e. því er skotið til hans og hann skipar til verkefnisins menn. Afskipti hæstv. landbrh. eru þar enn þá og þessi samræmingaraðili sem þar er hefur kannski getað útilokað eitthvert slíkt tilfelli.

Meðan lögin eru með þeim hætti sem þau eru er þessi ferill til staðar samt sem áður. Það má ekki oftúlka þá lagabreytingu sem yrði með samþykkt þessa frv. Hún er fyrst og fremst til að færa þennan kostnað, þessar 8 millj. kr. sem ríkið hefur kostað til embættis yfirullarmatsmanns, þ.e. manns sem ríkið hefur sett, til framleiðenda ef þörf krefur.