Tollalög

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 11:48:28 (7076)

2002-04-08 11:48:28# 127. lþ. 114.21 fundur 576. mál: #A tollalög# (tollar á grænmeti) frv. 46/2002, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[11:48]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Við Karl V. Matthíasson, fulltrúar Samfylkingarinnar í hv. landbn., skrifuðum undir þessa breytingu sem hér er verið að gera á tollalögum til að greiða fyrir lækkun á grænmeti á innanlandsmarkaði sem fyrirhuguð var. En eitt kom mjög skýrt fram við 1. umr. í okkar máli og að gefnu tilefni vil ég endurtaka það hér. Hér er verið að breyta tollalögum, setja skattfé borgaranna í niðurgreiðslur til bænda til að lækka verð til neytenda. Það er tilgangurinn. Því er mjög brýnt að unnt reynist að búa þannig um hnútana að greiðslur með þessari afurð sem eiga að vera til hagsbóta fyrir neytendur og til hagsbóta fyrir innlenda framleiðendur svo þeir geti tekið þátt í samkeppninni, að þetta fjármagn sem lagt er þarna fram renni ekki í vasa milliliða. Þetta kom skýrt fram við 1. umr. málsins. Eins og ég sagði áður tel ég mjög brýnt að nefndin framfylgi því í meðferð málsins í framhaldinu að þannig verði búið um hnútana að þetta komist til skila þangað sem það á að fara en renni ekki til stórra milliliða í greininni svo þeir geti makað krókinn á þessum peningum. Til þess voru þeir aldrei ætlaðir.