Tollalög

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 11:50:56 (7077)

2002-04-08 11:50:56# 127. lþ. 114.21 fundur 576. mál: #A tollalög# (tollar á grænmeti) frv. 46/2002, JB
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[11:50]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Þetta frv. til laga um breyting á tollalögum sem hér er til umræðu og snýr að landbúnaðarvörum er hluti af þeirri umgjörð sem var gerð í framhaldi af tillögum og greinargerð svokallaðrar grænmetisnefndar sem var skipuð af hálfu landbrh. til þess að ,,... meta starfsskilyrði, álagningu tolla og verðmyndun á gróðurhúsaafurðum og garðávöxtum við framleiðslu, heildsölu og smásölu.`` Þetta stendur í skipunarbréfi nefndarinnar, með leyfi forseta.

,,Þá er hópnum falið að gera tillögur til landbúnaðarráðuneytisins um það hvernig tryggja megi framleiðslumöguleika íslenskrar garðyrkju og lækka verð á gróðurhúsaafurðum og garðávöxtum til neytenda.``

Í framhaldi af því var m.a. lagt til að breytingar yrðu á tollum og þeir lækkaðir. En til að tryggja á móti samkeppnisstöðu grænmetisframleiðslunnar var ákveðið að leggja til að beingreiðslur yrðu veittar til framleiðenda ásamt ákveðnum öðrum hliðaraðgerðum. Það var ákveðið til að styrkja samkeppnisstöðuna.

Í fréttum síðustu daga hefur komið fram að ekki er tryggt að þessar beingreiðslur sem voru hugsaðar af hálfu stjórnvalda til að styrkja samkeppnisstöðu greinarinnar og gróðurhúsabænda kæmust allar til skila til þeirra, né heldur að þær muni skila sér til þess að lækka vöruverð til neytenda eins og ráð var fyrir gert. Fréttir herma að söluaðilar sem hafa milligöngu um sölu vörunnar til verslana hafi gert kröfu um að fá hlut sinn hækkaðan í þessari meðferð allri. Það þýðir í raun að framlagið sem var hugsað að færi til bænda lækkar sem nemur því sem milliliðirnir vilja taka til sín.

Þetta er í sjálfu sér mjög alvarlegt mál, virðulegi forseti. Ég vil því spyrja hv. formann landbn. hvort hann og nefndin hafi tekið eða hyggist taka til umræðu þessa nýju og breyttu stöðu sem er að koma upp. Var meiningin að hluti af þessu framlagi eða fjármagni sem þarna er verið að setja inn, þ.e. að þessar aðgerðir hins opinbera, það að lækka tolla á innfluttu grænmeti og styrkja samkeppnistöðu framleiðenda með beingreiðslum og öðrum slíkum beinum stuðningi, fari til sölusamtaka þeirra? Og þar sem ný staða hefur komið upp, þ.e. að hluti af þessu fjármagni fer til sölusamtakanna en ekki til bænda og ekki til framleiðenda, eru þá ekki forsendur nokkuð breyttar fyrir þeim lagafrv. sem við erum að leggja fram á þingi?

Ég vísa til tillögu og greinargerðar hinnar svokölluðu grænmetisnefndar landbrh. sem komst að ákveðnum niðurstöðum og lagði fram ákveðnar tillögur sem síðan var ákveðið að styrkja með lögum. Það var gert opinskátt þar að álagning mundi ekki breytast í sjálfu sér og að þetta þýddi ekki að milliliðir ættu að fá hlut af þessari framleiðslustyrkingu. En nú eru fréttir um annað.

Hyggst formaður landbn. taka málið aftur inn í landbn. og kalla þar til þá aðila sem málið varðar og breyta álagningarreglum sínum þvert á þau stefnumið og þau fyrirheit sem var talið að verið væri að gefa með því að lækka tolla á grænmeti og taka upp beingreiðslur til bænda? Ég vil fá vitneskju um hvort meining hv. landbn. hafi verið að hluti af þessum greiðslum ætti að fara í þennan milliliðakostnað? Hvað hyggst formaður landbn. og landbn. gera til að upplýsa þingið betur um þetta mál áður en það verður afgreitt héðan?