Hollustuhættir og mengunarvarnir

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 12:19:19 (7089)

2002-04-08 12:19:19# 127. lþ. 114.24 fundur 638. mál: #A hollustuhættir og mengunarvarnir# (starfsleyfi, hollustuvernd o.fl.) frv. 98/2002, ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[12:19]

Ásta Möller (andsvar):

Herra forseti. Af andsvari hæstv. ráðherra mátti skilja að hér væri átt við apótek en ekki verslun með fegrunar- og snyrtiefni. En ég vakti athygli á því í andsvari mínu að apótekin eru ekki nefnd þarna heldur eingöngu þessar verslanir. Jú, vissulega er verslað með fegrunar- og snyrtiefni í apótekum en það er ekki megináherslan í starfi þeirra, það eru lyfin. Ég vildi því biðja ráðherrann um að gefa mér kannski nákvæmari svör um þessi efni en jafnframt tel ég að hv. umhvn. þurfi að skoða þetta mál betur. Það er ekki æskilegt að setja kvaðir á verslanir eða starfsemi sem ekki eru gild rök fyrir.

Þar sem ég hef örfáar sekúndur til viðbótar langaði mig líka aðeins að fá upplýsingar um það hvers vegna miðað er við daggæslu með sex börn eða fleiri í heimahúsum. Það er alveg ljóst að í 3. gr. frv. er talað um að eftirlit Hollustuverndar felist m.a. í athugun á hreinlæti, öryggisráðstöfunum, sóttvörnum o.s.frv., og það er náttúrlega alveg ljóst að við daggæslu í heimahúsum þar sem eru færri börn en sex þarf samt ákveðin aðstaða að vera fyrir hendi og sams konar kröfur þarf að gera og þó að um fleiri börn væri að ræða. Einmitt að gefnu tilefni þarf kannski að skoða þetta nánar.

Annars finnst mér sem sagt að verið sé að setja of miklar kröfur á ákveðna starfsemi og kannski of litlar á aðra. En þetta verður náttúrlega allt saman að vega og meta hverju sinni, hvað er of mikið og hvað of lítið, og þá með hliðsjón af tilgangi laganna.