Hollustuhættir og mengunarvarnir

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 12:23:00 (7091)

2002-04-08 12:23:00# 127. lþ. 114.24 fundur 638. mál: #A hollustuhættir og mengunarvarnir# (starfsleyfi, hollustuvernd o.fl.) frv. 98/2002, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[12:23]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég tel að þetta mál sé dálítið seint á ferðinni, það hefði þurft að koma fram fyrr. Mig langar að grípa, með leyfi forseta, niður í umsögn um 4. gr. en þar er verið að fjalla um þessar tvær gerðir starfsleyfa:

,,Þessar tvær gerðir starfsleyfa lúta að formi til svipuðum reglum, en eru efnislega ólík og fjalla um mismunandi atriði, þ.e. annars vegar um framkvæmd hollustuverndar og hins vegar um mengunarvarnir. Af þeim sökum var farin sú leið að fjalla um þau í tveimur aðskildum ákvæðum. Er það til samræmis við þá leið sem farin er í núgildandi lögum. Yfirleitt eru starfsleyfi þau sem hér um ræðir meira íþyngjandi fyrir rekstraraðila og leggja á hann meiri kvaðir. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum er ekki gert ráð fyrir breytingu á framkvæmd varðandi starfsleyfi þessi heldur er verið að styrkja lagastoð þeirra.``

Og svo segir:

,,Í 1. mgr. ákvæðisins er kveðið á um þá skyldu atvinnurekstrar sem haft getur í för með sér mengun að hafa gilt starfsleyfi. Skv. 6. gr. núgildandi laga eru starfsleyfi þessi annars vegar gefin út af Hollustuvernd ríkisins og hins vegar af heilbrigðisnefndum. Sú tegund atvinnurekstrar sem fær útgefin starfsleyfi af Hollustuvernd ríkisins er talin upp í fylgiskjali með lögunum. Hins vegar er gert ráð fyrir því að ákveðið sé með reglugerð hvaða atvinnurekstur fær útgefið starfsleyfi af heilbrigðisnefndum, sbr. 2. mgr. 6. gr. núgildandi laga. Ekki er lagt til að breyting verði á þessu fyrirkomulagi.``

Ég verð að segja að ég lýsi yfir efasemdum um að skipta þessu með þessum hætti. Ég tel að það geti valdið ruglingi. Það er dálítið skrýtið að sjá upptalningu á hinum aðskiljanlegasta atvinnurekstri sem á að gefa út á vegum heilbrigðisnefndanna en svo er allur iðnaður og alls kyns starfsemi sem hefur með eiturefni og hættuleg efni að gera utan þessa lista og á að ákvarðast með öðrum hætti. Mér finnst einhvern veginn að þetta hefði mátt vera undir sambærilegum ákvæðum.

Menn þurfa þá auðvitað að skera úr um það hvort um er að ræða verkefni heilbrigðisnefndanna eða Hollustuverndar ríkisins en mér sýnist að þetta geti skarast töluvert þegar sums staðar er jafnvel verið að tala um sömu eða sams konar starfsemi, eins og t.d. talið er upp í 2. gr. Þá eru taldir upp starfsmannabústaðir og starfsmannabúðir. Þetta er hluti af starfsemi fyrirtækja sem þurfa svo með öðrum hætti að fá starfsleyfi frá hinu opinbera þannig að fyrirtæki þurfa þá að fá tvenns konar leyfi til að uppfylla settar reglur. Ég set svo sem ekkert út á að menn þurfi að uppfylla reglur en mér finnst a.m.k. ástæða til að nefna það hér að það sé kannað, og nefndin geri það þá kannski, hvort ekki sé nægilegt fyrir viðkomandi starfsemi að hafa eitt starfsleyfi og hún þurfi þá ekki á því að halda að sækja eftir starfsleyfi heilbrigðisnefndanna ef starfsleyfið frá Hollustuvernd er fyrir hendi.

Ég hef ekki skoðað málið nógu rækilega til að geta rætt um það út í hörgul en mér finnst það vera, ég endurtek það, fullseint fram komið til að það nái að komast í gegn í þetta skipti. Ég fullyrði svo sem ekki um það en nefndin mun auðvitað taka þetta til skoðunar og vonandi gengur það.