Hollustuhættir og mengunarvarnir

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 12:41:58 (7095)

2002-04-08 12:41:58# 127. lþ. 114.24 fundur 638. mál: #A hollustuhættir og mengunarvarnir# (starfsleyfi, hollustuvernd o.fl.) frv. 98/2002, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[12:41]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Lagastoðin er ekki ófullnægjandi að okkar mati en hún mætti vera skýrari. Þess vegna sjáum við ástæðu til að kveða skýrar á varðandi starfsleyfin í lögunum.

Í sambandi við götin sem lúta að öryggisþáttunum þá felur frv. einmitt í sér að hafa það alveg skýrt hver fer með hvaða eftirlit. Verið er að minnka götin ef eitthvað er. Menn hafa rætt þetta milli stofnana, m.a. við Vinnueftirlitið eins og hér hefur komið fram, og þetta lagafrv. er m.a. reist á samkomulagi sem var gert við þá um hvar bæri að skýra mörk milli stofnana.

Ég teldi mjög æskilegt að við kláruðum málið um nýja umhverfisstofnun núna í vor en ég veit að tíminn er mjög skammur. Nokkuð breið samstaða ríkir um það mál hjá stofnununum. Ég veit að það er mjög erfitt þegar menn fara í miklar breytingar, það er bara mannlegt að menn hafi varann á sér, en nokkuð breið samstaða ríkir um þetta. Ég vil líka benda á að við höfum rætt þetta við frjáls félagasamtök sem voru tiltölulega jákvæð og það kom m.a. fram hjá einum forustumanna þeirra að þetta væri löngu tímabær breyting. Ég tel því að menn eigi ekki að vera mjög tortryggnir gagnvart því. Ég tel þetta vera mjög jákvætt mál og að við getum eflt umhverfismálin í landinu með því að sameina þær stofnanir sem um ræðir í eina öfluga nýja umhverfisstofnun.