Hollustuhættir og mengunarvarnir

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 12:43:36 (7096)

2002-04-08 12:43:36# 127. lþ. 114.24 fundur 638. mál: #A hollustuhættir og mengunarvarnir# (starfsleyfi, hollustuvernd o.fl.) frv. 98/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[12:43]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Aðeins um þetta síðasta aftur, ég er ekki með neina fyrirframtortryggni í garð þess að þetta geti ekki verið ágæt breyting í stjórnsýslunni og stjórnkerfinu. Þó þarf alltaf að fara mjög vel yfir það hversu vel hlutirnir eigi saman í einni stofnun. Það er ekki endilega þannig að einasta aðferðin til að efla einhverja starfsemi sé að slá henni saman í enn þá stærri stofnanir. Þvert á móti getur það skapað ýmis vandamál, og mjög miðstýrð stofnanagerð stjórnsýsla er ekki endilega það sem við eigum að stefna að. Ég er þó að vísu þeirrar skoðunar almennt að betra sé að efla upp fagstofnanir en að ráðuneytin sjálf þenjist út í hið óendanlega. Það hefur líka mikil vandamál í för með sér. Báðar aðferðirnar hafa þá hættu í sér fólgna ef menn eru ekki með opinn hug gagnvart því að dreifa valdi og verkefnum að um mjög miðstýrða og lokaða stjórnsýslu verði að ræða hér í póstnúmeri 101.

Ég hef verið spenntur fyrir því, ekki síst með mál á sviði umhvrn., að þau yrðu skoðuð með vald- og verkefnadreifingu í huga. Það fyndist mér þá eiga að gera í tengslum við endurskipulagningu þessara mála og hleypa öllum að því borði, líka forsvarsmönnum sveitarfélaga, fagaðilum, áhugamannasamtökum sem hér voru nefnd o.s.frv. Það er þá hið besta mál og einhvern veginn leggst þetta mál allt saman þannig í mig, af því að þessa hluti ber tiltölulega brátt að, samanber það að ekki eru nema nokkrar vikur síðan hæstv. ráðherra kynnti þessi áform í fyrsta skipti opinberlega, að menn ættu að taka sér sumarið í að vinna þessa hluti.