Meðhöndlun úrgangs

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 12:55:31 (7101)

2002-04-08 12:55:31# 127. lþ. 114.25 fundur 651. mál: #A meðhöndlun úrgangs# (EES-reglur) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[12:55]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þróunin hefur verið slík hin seinni ár að urðunarstöðum hefur farið fækkandi sem betur fer að mörgu leyti því auðvitað eru gerðar meiri kröfur í dag en áður fyrr til þessara staða og þá borgar sig að menn sameinist sem mest um slíka urðunarstaði. Sveitarfélögin sem bera meginábyrgð á þessari starfsemi hafa einmitt sameinast í æ ríkari mæli um urðunarstaði og ég vænti þess að sveitarfélögin muni gera það enn frekar í framtíðinni. En hvort það sé búið að reikna út hve marga staði landið ber eða eitthvað slíkt þá eru engar tölur beint til yfir það. Landið ber alla vega nógu marga urðunarstaði til að eðlilegt megi teljast. Við erum að setja hér meiri reglur en við höfum séð áður um vöktun á þessum urðunarstöðum. Það má vel vera að þeim fækki eitthvað eilítið vegna þessa þar sem menn vilja þá sameinast öðrum til að standa betur undir kostnaðinum við slíkt.