Ályktun um sjálfstæði Palestínu

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 15:03:38 (7106)

2002-04-08 15:03:38# 127. lþ. 114.1 fundur 480#B ályktun um sjálfstæði Palestínu# (óundirbúin fsp.), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[15:03]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Við höfum mörgum sinnum rætt hér málefni Palestínu og hæstv. starfandi forsrh. hefur oft tekið undir það að íslenska þjóðin þurfi með einhverjum hætti að sýna samstöðu með palestínsku þjóðinni.

Ég kem hingað samt sem áður, herra forseti, til þess að undrast að hið háa Alþingi láti sitt eftir liggja í þessum efnum. Ógnaröld ríkir í Palestínu og við sjáum ólýsanlegar hörmungar þar. Við sjáum að Sharon forsætisráðherra, sem sumir telja að hafi framið stríðsglæpi fyrr á árum, ætlar sér greinilega að láta kné fylgja kviði og ganga milli bols og höfuðs á palestínsku þjóðinni. Við sjáum að ísraelskir hermenn varðir af bryndrekum og herþyrlum fara hús úr húsi, jafna hús við jörðu og reka palestínskar fjölskyldur af heimilum sínum. Bara í síðasta mánuði voru 5--6 þúsund manns tekin höndum, tilviljanakennt, á götum úti og á heimilum af Ísraelsher, 1.650 í heimaborg Arafats og Mustafas Barghouthis, sérstaks vinar íslensku þjóðarinnar, og í Ramallah voru 1.500 manns limlestir eða slasaðir, 250 manns dóu. Þetta er samkvæmt opinberum tölum, herra forseti, og þó segir Mustafa Barghouthi að líklegt sé að miklu fleiri hafi orðið fyrir búsifjum.

Herra forseti. Það ljótasta birtist í því að ísraelskir hermenn koma nú í veg fyrir að hægt sé að hjúkra særðum og þjáðum með því að ráðast á sjúkrabíla og koma í veg fyrir að hægt sé að flytja sjúkt fólk og sært á sjúkrahús.

Herra forseti. Fyrir þinginu liggur tillaga. Hún hefur ekki fengist afgreidd. Það eru skilaboð til umheimsins. Ég vil þess vegna spyrja formann Framsfl., utanrrh. og hæstv. starfandi forsrh.: Telur hann ekki rétt að beita liðsinni sínu til þess að Alþingi afgreiði þetta mál?