Frumvarp um Þjóðhagsstofnun

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 15:09:36 (7109)

2002-04-08 15:09:36# 127. lþ. 114.1 fundur 481#B Frumvarp um Þjóðhagsstofnun# (óundirbúin fsp.), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[15:09]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Nýverið kom fram að hæstv. forsrh. hafi kynnt á ríkisstjórnarfundi frv. um að leggja niður Þjóðhagsstofnun. Margir höfðu vonast til að þetta mál væri út af borðinu því að fæstir sjá nokkra skynsemi í því að leggja niður Þjóðhagsstofnun sem gegnir mikilvægu hlutverki sem óháð stofnun við hagrannsóknir og greiningu á stöðu og spá um þróun efnahagslífsins, þó e.t.v. megi endurskipuleggja verkefni þeirra stofnana sem fjalla um hagrannsóknir og efnahagsmál.

Satt að segja treystu margir á að Framsfl. mundi standa fast í ístaðinu og sporna af festu við því að leggja stofnunina niður en allar hugmyndir um hvað eigi að koma í staðinn hafa hingað til verið fráleitar, eins og að færa gerð efnahagsspár til fjmrn.

Ég vil því spyrja hæstv. utanrrh. og starfandi forsrh. hvort samkomulag sé milli stjórnarflokkanna um að leggja niður Þjóðhagsstofnun. Ef svo er, spyr ég: Hvaða fagleg og fjárhagslög rök standa til þess að leggja niður hina sjálfstæðu og óháðu stofnun sem svo mikla þýðingu hefur haft, m.a. við greiningu og hagstjórn í efnahags- og atvinnulífinu?