Verð og reglur um útfluttan fisk

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 15:25:01 (7121)

2002-04-08 15:25:01# 127. lþ. 114.1 fundur 483#B verð og reglur um útfluttan fisk# (óundirbúin fsp.), GE
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[15:25]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. sjútvrh. Tilefnið er að það hefur vakið athygli mína og margra annarra að það er verið að flytja út fisk frá Íslandi. Hann er seldur á markaði erlendis á miklu lægra verði en gerist á íslenskum fiskmörkuðum. Samkvæmt því sem fram kom í síðasta fimmtudagsblaði Morgunblaðsins var meðalsöluverð ýsu á erlendum mörkuðum á 138 kr. en meðalverð á íslenskum mörkuðum var í kringum 250 kr. Spurning mín er: Hefur hæstv. sjútvrh. einhverja skýringu á þessu? Hver gæti verið skýringin á bak við þetta?

Síðan er ástæða til þess að spyrja hvaða reglur gilda um skráningu á lönduðum afla úr íslenskum skipum eða úr gámum, hvernig sem fiskurinn er fluttur til útlanda. Hvaða reglur gilda um það?

Það er auðvitað margt í sambandi við þessi mál sem ástæða er til að velta fyrir sér. Það er t.d. ótrúlegt --- og fyrir það getur ráðherra að sjálfsögðu ekki svarað --- að flutningur á frystum fiski með flutningafyrirtækjunum kosti þriðjung af því sem það kostar að flytja ferskan fisk. Það eru einhver skrýtin lögmál þar á bak við og virkilega ástæða til að fara yfir þessi mál, hvernig fiskmarkaðirnir eru reknir, hverjar ábyrgðir þeirra eru gagnvart kaupendum. Kaupendur verða t.d. að leggja fram stórar upphæðir og tryggingar til að fá að vera í viðskiptum en fiskmarkaðirnir hafa kannski ekki einu sinni reglur við að styðjast þó að þessi fyrirtæki fari með mikla fjármuni, jafnvel milljarða í hverjum mánuði. Það er ástæða til að ræða mörg þessara mála.