Nýting orku frá Kárahnjúkavirkjun

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 15:32:05 (7125)

2002-04-08 15:32:05# 127. lþ. 114.1 fundur 484#B nýting orku frá Kárahnjúkavirkjun# (óundirbúin fsp.), KolH
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[15:32]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Mér og öðrum í þessum sal er vel kunnugt um yfirlýsingar hæstv. ráðherra og áform hennar um að komi til þess að Kárahnjúkavirkjun verði reist þá verði orkan nýtt á Austurlandi og hvergi annars staðar.

Nú langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji að virkjunarleyfið sem frv. um virkjun Jöklulsár á Brú, Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar gefur henni heimild til að gefa út, sé á einhvern hátt formlega skilyrt hvað varðar nýtingu orkunnar, þ.e. að hana beri að nýta á Austurlandi.

Herra forseti. Jafnframt langar mig að vita hvort hæstv. ráðherra telji að yfirlýsingar þær sem hún hefur gefið um að ekki verði virkjað við Kárahnjúka nema orkan verði nýtt á Austurlandi bindi hendur þeirra ráðherra sem á eftir henni kæmu. Segjum, herra forseti, að nýr ráðherra setjist í iðnrn. eftir næstu kosningar. Er þá eitthvað í formlegri afgreiðslu þessa máls nú sem tryggir það að nýr ráðherra sé bundinn af yfirlýsingum hæstv. iðnrh. Valgerðar Sverrisdóttur í málinu?

Herra forseti. Við skulum ekki gleyma því að hér er um að ræða heimild sem á eftir að lifa í fórum hæstv. iðnrh. í tíu ár. Ef, herra forseti, orkunýtingin verður bundin við Austurland hvað Kárahnjúkavirkjun varðar, hvað þá með orkuna sem fæst við stækkun Kröflu?