Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 15:39:45 (7128)

2002-04-08 15:39:45# 127. lþ. 114.6 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, iðnrh. (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[15:39]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Í dag munum við ná merkum áfanga í virkjunarsögu Íslands. Alþingi Íslendinga mun veita Landsvirkjun heimild til þess að virkja vatnsföllin Jökulsá á Brú og Jökulsá í Fljótsdal með byggingu Kárahnjúkvirkjunar sem verður langstærsta raforkumannvirki þjóðarinnar að því er séð verður um ókomna tíð. Að baki samþykkt okkar býr afar vönduð vinna færustu sérfræðinga okkar um tæplega áratugar skeið sem liðinn er frá því að þessi virkjunarkostur var fyrst opinberlega kynntur. Frá þeim tíma hefur markvisst verið unnið að því að finna hagkvæmustu lausnir á gerð mannvirkisins og um leið leitað allra leiða til að draga úr óhjákvæmilegum umhverfisáhrifum þess.

Með ákvörðun Alþingis höfum við stigið gríðarstórt spor fram á veginn til aukinnar nýtingar hinna hreinu orkulinda þjóðarinnar sem mun auka hagsæld hennar um langa framtíð. Ég segi já.