Meðhöndlun úrgangs

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 16:49:45 (7152)

2002-04-08 16:49:45# 127. lþ. 114.25 fundur 651. mál: #A meðhöndlun úrgangs# (EES-reglur) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[16:49]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi lög eru að sjálfsögðu miklu víðtækari en hæstv. ráðherra sagði hér. Þetta er líka varðandi úrgang sem myndast og hvernig honum verður komið í endurnotkun og endurnýtingu o.s.frv. Þetta lýtur að miklu fjölbreyttari úrgangi en bara þeim úrgangi sem er síðan að lokum urðaður þannig að flokkunin og meðhöndlunin á úrganginum öllum er kannski stærsta málið í þessu en þar getur verið um töluverðan stofnkostnað að ræða. Einnig skiptir máli með hvaða hætti við ætlum að endurnýta úrgang. Eins og hæstv. ráðherra minntist á hefur t.d. í Skaftárhreppi úrgangurinn verið nýttur til að hita upp vatn, hita upp sundlaug o.s.frv. Ráðast þarf í stofnkostnað til að vel sé að málum staðið.

Ég vek athygli á því að það frv. sem laut að fráveitumálum sveitarfélaga strandaði einmitt á því að þar voru sett háleit markmið en fjárhagsgeta sveitarfélaga til að uppfylla þau var fjarri þeim raunveruleika sem þau stóðu frammi fyrir, meira að segja svo að það litla fjármagn sem ríkið hafði veitt á fjárlögum til að styrkja sveitarfélögin á móti, greiða 20--23% af kostnaðinum sem næmi virðisaukaskattinum, hefur ekki einu sinni verið nýtt vegna þess að sveitarfélögin hafa ekki efni eða tök á því að ráðast í slíkar framkvæmdir. Hér er vissulega um gott og þarft mál að ræða en það þarf að tryggja því líka örugga framkvæmd og ég tel að ríkið og samfélagið allt beri ábyrgð á því að svo verði.