Fangelsi og fangavist

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 16:52:00 (7153)

2002-04-08 16:52:00# 127. lþ. 114.26 fundur 639. mál: #A fangelsi og fangavist# (vinnsla persónuupplýsinga) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[16:52]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um fangelsi og fangavist, nr. 48/1988. Hér eru lagðar til breytingar á 2. gr. laganna sem lúta að heimildum til að halda skrár um fanga. Lagt er til að hjá Fangelsismálastofnun og í fangelsum verði vinnsla persónuupplýsinga heimil, þar á meðal þeirra upplýsinga sem viðkvæmar geta talist að því marki sem slík vinnsla telst nauðsynleg vegna starfsemi viðkomandi stofnunar.

Hér er í reynd ekki um breytingar að ræða á framkvæmdinni en fram til þessa hefur skort skýrar lagaheimildir til þess að Fangelsismálastofnun og fangelsi haldi skrár um fanga. Þó er talið nauðsynlegt að halda slíkar skrár, m.a. með viðkvæmum persónuupplýsingum. Má þar t.d. nefna vinnslu upplýsinga um fullnustu refsidóma og aðrar ákvarðanir sem fela í sér refsingar og stofnuninni berast til fullnustu og hafa verið haldnar um árabil. Með því að setja skýra lagaheimild um vinnslu persónuupplýsinga á þessu sviði er verið að uppfylla lagaskilyrði fyrir slíkri vinnslu samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Persónuvernd mun hafa eftirlit með vinnslu persónuupplýsinga hjá stofnuninni.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.