Fangelsi og fangavist

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 16:53:27 (7154)

2002-04-08 16:53:27# 127. lþ. 114.26 fundur 639. mál: #A fangelsi og fangavist# (vinnsla persónuupplýsinga) frv., GÖ
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[16:53]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Hæstv. dómsmrh. hefur mælt fyrir frv. til laga um breyting á lögum um fangelsi og fangavist, nr. 48/1988, með síðari breytingum.

Hér er verið að heimila Fangelsismálastofnun vinnslu persónulegra upplýsinga. Ég hef svo sem ekkert við það að athuga annað en að vissulega þarf að hafa hönd í bagga og passa upp á að ekki verði neinar upplýsingar samkeyrðar og ekkert sjálfsagt í þeim efnum þannig að nú mun hv. allshn. taka málið til umfjöllunar og þá um leið fá umsögn Persónuverndar um málið.

Hins vegar kom fram í þeim lagatexta sem fram hefur verið lagður um útlendinga að talið var að gengið væri fulllangt í vinnslu persónuupplýsinga. Það þarf því fyrst og fremst að fara með varúð. Þetta eru viðkvæmir hlutir og aðalatriðið er að ekkert sé samkeyrt og þegar Persónuvernd hefur rætt málið við allshn. sé ég ekkert því til fyrirstöðu að það verði samþykkt.