Umferðarlög

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 17:05:59 (7160)

2002-04-08 17:05:59# 127. lþ. 114.27 fundur 652. mál: #A umferðarlög# (Umferðarstofa o.fl.) frv. 83/2002, ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[17:05]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um frv. sem við erum að ræða hér, um breyting á umferðarlögunum, nema kannski tvö atriði sem ég vildi aðeins koma inn á. Í fyrsta lagi fagna ég þeirri breytingu sem lögð er til hér varðandi bráðabirgðaskírteini. Hér er í raun verið að fara ákveðna hvatningarleið vegna ungra ökumanna sem ég tel mikilvægt.

Eins og kom fram í máli hæstv. dómsmrh. áðan var ég í starfshópi sem var skipaður til að fara yfir þessi mál, og eftir mikla yfirlegu varð niðurstaðan m.a. sú að fara ekki einföldustu leiðina, að hækka aldurstakmarkið upp í 18 ár, heldur kom í ljós þegar öll nefndin fór að skoða gögnin og kalla til sín fólk að það var í rauninni ekki það sem mundi gefast best heldur aukið aðhald ungra ökumanna. Það hefur einnig sýnt sig að heimildin um æfingaaksturinn frá 16--17 ára hefur bætt aksturslag ungra ökumanna til muna. Ég held því að ákvæðið sem er í 1. gr. sé áhugavert og afdráttarlaust eitthvað sem við eigum að skoða vel. Ég efa ekki að það geti komið að notum til að bæta aksturslagið.

Síðan er hitt atriðið og það finnst mér í rauninni gegnumgangandi. Við ætlum að ræða á eftir, hæstv. forseti, tillögu um umferðaröryggisáætlun. Þetta er eiginlega atriði sem gæti líka fallið þar undir en er í rauninni samræming umferðaröryggismála. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvernig og hvort það hafi verið kannað á samstarfsvettvangi samgrn. og dómsmrn. að reyna að samhæfa það hvar og hvernig umferðaröryggismálum verði stjórnað og hvar stefnumótun sem slík fari fram. Mér finnst miður, herra forseti --- við höfum þegar rætt á Alþingi samgönguáætlun sem er mjög metnaðarfull áætlun í samgöngumálum til lengri tíma en þar er málið afgreitt. Með leyfi forseta vil ég lesa það sem segir á bls. 22 í samgönguáætluninni:

,,Margt mælir með því að stjórnsýsla umferðarmála fyrir utan umferðareftirlit og stjórnun færist frá dómsmálaráðuneytinu til samgönguráðuneytisins. Þetta er hliðstætt skipan mála hjá Flugmálastjórn og Siglingastofnun. Einnig er þetta sama skipan og gildir víðast hvar hjá þeim þjóðum sem við berum okkur saman við, þar sem umferðaröryggismál teljast til samgöngumála. Vegagerðin lætur nú þegar mikla fjármuni renna til umferðaröryggismála og umferðareftirlits.``

Ég ætla í sjálfu sér ekki, herra forseti, að segja til um það hvar umferðaröryggismál eigi heima. Það sem ég er að kalla eftir er að ráðuneytin tali saman í þessum mikilvæga málaflokki. Þegar verið er að fara út í jafnumfangsmiklar breytingar eins og lagt er til í þessu frv. varðandi Umferðarráð og Skráningarstofuna sem síðar verður breytt í Umferðarstofnun finnst mér eðlilegt að spyrja þessarar spurningar: Hvað var nákvæmlega gert til að samræma þau sjónarmið sem við köllum öll eftir, að litið verði heildstætt á umferðaröryggismál?

Ég held að ég láti þetta þá kyrrt liggja að sinni en ég hlakka til að takast á við þetta mál í allshn. og fá tækifæri til að ræða það þar enn frekar.