Umferðarlög

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 17:30:26 (7165)

2002-04-08 17:30:26# 127. lþ. 114.27 fundur 652. mál: #A umferðarlög# (Umferðarstofa o.fl.) frv. 83/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[17:30]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Bara til að það sé alveg skýrt og misskiljist ekki. Ég er í sjálfu sér ekki með hugmyndir um að fara út í að hækka aldurinn. Ég var frekar að mæla varnaðarorð með því að menn slökuðu á nokkurn hátt á og ég held að það sé alveg rétt að aukið aðhald og punktakerfi hefur skilað árangri. Ég þykist vita það sjálfur sem faðir nýlega tilkomins ökumanns að menn eru meðvitaðir um það og ákveðin ögun er fólgin í því að eiga það á hættu ef menn fá á sig blossa á ljósi eða eitthvað því um líkt.

Þegar ég flutti frv. mitt um byrjendaskírteini, hálfsársbyrjendaskírteini sem fyrsta hlutann af þessu réttindaávinnslukerfi, þá var að vísu enginn æfingaakstur kominn til sögunnar og hugsun mín var þá einmitt sú að í reynd kæmi eins og ákveðinn æfingaakstur til sögunnar sem fyrsta hálfa árið í ferli hvers ökumanns. Sú leið var valin að leyfa mönnum að sækja um og hafa þau réttindi frá 16 ára aldri samhliða ökunáminu áður en þeir fengju svo bráðabirgðaskírteini og enginn vafi er á því að það hefur skilað árangri. Ég held að ástæða sé til að hvetja til þess að menn nýti sér það. Ég er ekki í nokkrum minnsta vafa um að það er gert. Reyndar má velta því fyrir sér hvort þurfi t.d. ekki síður að huga að öðru árinu því að út úr tölfræðinni má lesa að sum árin að undanförnu hafa slys og óhöpp sem tengjast 18--19 ára ökumönnum verið hlutfallslega jafnalgeng eða algengari en þau sem tengjast ökumönnum á fyrsta ári. Það segir kannski ákveðna sögu um að það byrjar að slakna á þegar eins og ár er liðið frá því að menn fengu réttindin.

Af því að ég var að tala um hve stjórnin væri drjúg við að dæla inn nýjum ríkisstofnunum, þá var athygli mín vakin á því að einmitt í þeim töluðum orðum var dreift hér frv. til laga um lýðheilsustöð sem er enn ein ný ríkisstofnun sem stjórnin er að koma á laggirnar.