Umferðarlög

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 17:33:39 (7167)

2002-04-08 17:33:39# 127. lþ. 114.27 fundur 652. mál: #A umferðarlög# (Umferðarstofa o.fl.) frv. 83/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[17:33]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það fer allt eftir því hver starfsemin er og hversu þörf og nauðsynleg hún er, hvaða afstöðu ræðumaður hefur í þeim efnum. Ég hef ekki hugsað mér að rjúka beinlínis til og fara að hjálpa til við að slá Þjóðhagsstofnun af því að hún var einmitt stofnun sem var kannski með vissa óþægð við yfirvöldin og fær það að launum að hún er bara slegin af svona eins og Náttúruverndarráð sem brúkaði kjaft við umhvrh. En það er ekki rétta aðferðin í stjórnsýslunni.

Ég held að við þurfum að fara vel yfir það í hverju tilviki hvaða verkefni stofnanirnar hafa með höndum, hvað á að vera hjá ráðuneytunum sjálfum, hvað á að vera í stjórnsýslu- eða fagstofnunum og hvernig þeim hlutum er best fyrir komið. Það er engin töfralausn eða formúla til í þeim efnum.

Allra síst finnst mér að menn eigi að taka skref aftur á bak eins og það er óumdeilanlega að leggja niður sjálfstæða stofnun sem metur þjóðhagsforsendur og getur veitt hlutlægar og helst hlutlausar upplýsingar um þær. Miklu nær væri að taka skref í hina áttina að koma slíkri stofnun í skjól af Alþingi og efla hana þannig að hún gæti sinnt hlutverki sínu vel og allir, jafnt Alþingi, stjórn sem stjórnarandstaða, og opinberar stofnanir ættu þar greiðan aðgang að sjálfstæðri, óháðri stofnun sem óumdeilanlega væri engum háð nema sjálfri sér í sinni faglegu vinnu. Ég verð því að hryggja hv. þm. með því að lofa henni ekki stuðningi heldur þvert á móti harðri andstöðu við þetta reiðifrv., um að refsa Þjóðhagsstofnun fyrir óhlýðnina með því að leggja hana niður.

Varðandi Umferðarstofnunina, þá tel ég einfaldlega rétt að skoða það mál mjög vandlega. Þetta er þrátt fyrir allt viðkvæmur málaflokkur þar sem menn eiga að reyna að vinna faglega og helst þverpólitískt og hafa samkomulag um hlutina því að það er engum greiði gerður með neinu öðru.