Umferðarlög

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 17:41:15 (7169)

2002-04-08 17:41:15# 127. lþ. 114.27 fundur 652. mál: #A umferðarlög# (Umferðarstofa o.fl.) frv. 83/2002, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[17:41]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ásta Möller á einmitt sæti í hv. allshn. þannig að ég treysti því að hún fái tækifæri til þess að skoða þetta vel. En ég vil benda á það sem stendur í greinargerð á bls. 4 í frv. þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Meginmarkmiðið með endurskoðun á stjórnsýslu bifreiðamála er að koma á heildstæðu skipulagi á þessu sviði. Er það talið nauðsynlegt til að tryggja markvissari framkvæmd umferðaröryggismála með því að sameina á einum stað málefni ökutækja, umferðarfræðslu og umferðaröryggis og fleiri verkefni sem tengjast ökutækjum og umferð. Einnig næst með þessu rekstrarleg hagkvæmni, m.a. vegna samnýtingar sérhæfðs húsnæðis, búnaðar og starfskrafta.``

Enn fremur segir í 2. mgr. 7. gr.:

,,Umferðarstofnun er heimilt að fela öðrum framkvæmd verkefna sem henni tilheyra, samkvæmt reglum sem dómsmálaráðherra setur.``

Sameining þessara tveggja stofnana gefur einmitt færi á að bjóða út verkefni, hagræða og einkavæða í þessum málaflokki.