Umferðarlög

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 17:44:07 (7171)

2002-04-08 17:44:07# 127. lþ. 114.27 fundur 652. mál: #A umferðarlög# (Umferðarstofa o.fl.) frv. 83/2002, KLM
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[17:44]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð um það frv. sem hæstv. dómsmrh. hefur fylgt úr hlaði, um breytingu á umferðarlögum, og þá umræðu sem hér hefur verið sem óneitanlega blandast töluvert saman við það sem síðar er á dagskrá þessa fundar, þ.e. umferðaröryggisáætlunina fyrir árin 2002--2012, vegna þess að í athugasemdum við frv. er oft vitnað í umferðaröryggismál.

[17:45]

Því verð ég að segja það strax, herra forseti, að mér finnst að umferðaröryggismál hafi á umliðnum árum verið hálfgert olnborgabarn hæstv. dómsmrh. og dómsmrn. Það sést af því að umferðaröryggisáætlun kemur jafnseint fram og raun ber vitni. Kem ég að því síðar þegar við ræðum þá áætlun.

Hér er verið að boða breytingar, þ.e. sameina verkefni Skráningarstofunnar hf., hlutafélagsins, og Umferðarráðs í nýja stofnun sem á að heita Umferðarstofnun. Það leiðir hugann að því hvers vegna ekki hafi verið gengið í það sem landsfundur Sjálfstfl. hefur ályktað um, þ.e. að færa umferðaröryggismál úr dómsmrn. í samgrn. þar sem þau eiga miklu frekar heima að mínu mati.

Í hvert skipti sem rætt er um vegagerð, vegáætlun og þá miklu peninga sem lagðir eru í vegaframkvæmdir og annað slíkt kemur þetta upp í hugann vegna þess hvað þetta blandast rosalega mikið saman. Því vil ég nota tækifærið og spyrja hæstv. dómsmrh. út þetta vegna þess að hér er verið að gera breytingar sem ráðherra telur til bóta. Ég ætla ekki að úttala mig um þær hér og nú. En í athugasemdum með frv. segir:

,,Með þessu er að því stefnt fyrst og fremst að tryggja markvissa framkvæmd umferðaröryggismála í samræmi við yfirlýsta stefnu stjórnvalda.``

Nú er það að sjálfsögðu ekki stefnumið núv. hæstv. ríkisstjórnar að framkvæma þá breytingu sem ég gerði að umtalsefni, þ.e. að færa umferðaröryggismálin til samgrn., samtvinna þau meira vegáætlun og þeirri vinnu allri og að Vegagerðin komi miklu meira að þeim. Varðandi umferðaröryggismálin þá er allra verst í þeim málaflokki öllum --- og skiptir þá ekki máli hvort málaflokkurinn er vistaður í dómsmrn. eða samgrn. eða hvort þessar stofnanir eru leiddar saman og sameinaðar undir Umferðarstofnun --- það skiptir í raun engu máli hvað gert er ef peningar fylgja ekki með. Það er aðalatriðið í umferðaröryggismálum í dag og svo hefur verið undanfarin ár að peningar hafa ekki fylgt með þeirri áætlun. Þessar glæsilegu skýrslur sem settar eru fram, t.d. umferðaröryggisáætlun og fleira, eru allt saman góð plögg og það er gott sem stendur í þeim. En gallinn er bara sá að það er allt of lítið farið eftir þeim vegna peningaleysis. Þess vegna vil ég líka nota tækfærið og spyrja hæstv. dómsmrh. út í þetta hér og nú. Það var boðað að meiri peningar kæmu á fjárlögum fyrir árið 2002 til þess að vinna að þessum mjög mikilvæga málaflokki sem nágrannaþjóðir okkar setja svakalega mikla peninga í. Ég kem betur að því undir hinum dagskrárliðnum. Þá tek ég dæmi um hvernig Norðurlöndin gera þetta. Um þetta vildi ég spyrja út í núna, herra forseti, í tengslum við þessa breytingu, vegna þess, eins og ég segi, að ég sé ekkert endilega tilganginn með því að sameina þetta. Hér kemur fram að verið sé að spara peninga og húsnæði o.s.frv. Ef til vill er það rétt að betur verði hægt að nýta mannskap ef frv. verður samþykkt. En aðalatriðið er auðvitað að hægt verði að fylgja þessu eftir á þann hátt sem ég hef gert að umtalsefni.

Herra forseti. Þessar tvær spurningar vildi ég leggja fyrir hæstv. dómsmrh. vegna þess að í frv. er boðuð sameining þessara tveggja stofnana í eina ríkisstofnun, Umferðarstofnun, til að nýta betur peninga, mannskap, fjármuni og húsnæði. Þá leitar spurning á huga minn: Hvernig á að vinna að umferðaröryggismálum með ekki meiri peningum en lagðir hafa verði fram í dag, því þeir eru sáralitlir?

Af því að ég stend í stólnum að ræða þessi mál vil ég segja að ég hef verið að skoða þessa skýrslu um umferðaröryggisáætlun, þ.e. eftir að ég fékk hana loksins gefins frá hæstv. dómsmrh. þegar málið var fyrst lagt fram. Ég tek þó skýrt fram að skýrslan var lögð í hólf okkar þingmanna að sjálfsögðu. En það fór fram hjá mér. Og ég sé dálítið mikinn mun á þeirri umferðaröryggisáætlun sem hér er lögð fram af hæstv. dómsmrh. fyrir árin 2002--2012 og umferðaröryggisáætlun sem hefur verið í gildi fyrir Reykjavík. Á þeim er mikill munur.

Ég get tekið dæmi. Þar fylgir þó með dagsett og tölusett framkvæmdaáætlun, þ.e. með tölum sem skýra út hvernig skuli vinna. Eftir því sem ég kemst næst hafa öll markmið þeirrar umferðaröryggisáætlunar sem R-listinn í Reykjavík beitti sér fyrir fljótlega eftir að hann komst þar til valda gengið eftir, bæði hvað fjármuni varðar og fækkun slysa. Það er vel. Ég hygg að það staðfesti og sýni að hægt sé að vinna að bættri umferðarmenningu á öllum sviðum og að umferðaröryggisáætlun sanni gildi sitt ef peningar fylgja með. En umferðaröryggisáætlun án peninga er ekkert nema fallegur glanspappír.