Umferðarlög

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 17:50:47 (7172)

2002-04-08 17:50:47# 127. lþ. 114.27 fundur 652. mál: #A umferðarlög# (Umferðarstofa o.fl.) frv. 83/2002, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[17:50]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. bendir á um að fjármagn þurfi til framkvæmda og eftirlits með framkvæmdum. Þá er hann m.a. að vísa í umræðu um umferðaröryggisáætlun sem hér er líka á dagskrá þingsins og ég hef þegar mælt fyrir fyrir nokkru. En mig langar til að vísa í 4. tölulið í greinargerð með þáltill. sem fylgir þessari umferðaröryggisáætlun. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

,,Þá leggur nefndin til að skipuð verði framkvæmdanefnd sem hafi það meginverkefni að tryggja að unnið sé í samræmi við umferðaröryggisáætlun og að markmiðum Alþingis og stjórnvalda verði náð. Nefndin skili skýrslu til Alþingis í byrjun hvers árs þar sem hún geri grein fyrir hvernig til hafi tekist.``

Ég tel að sú tillaga sem hér liggur fyrir sé mjög mikilvæg og muni tryggja meira eftirlit í þessum málaflokki, eftirlit með því að framkvæmd verði ákveðin áhersluatriði sem koma fram í þessari áætlun. Að sjálfsögðu þarf svo að tryggja fjármagn til þeirra hluta þegar fyrir liggur hvað eigi að gera.