Umferðarlög

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 18:04:56 (7179)

2002-04-08 18:04:56# 127. lþ. 114.27 fundur 652. mál: #A umferðarlög# (Umferðarstofa o.fl.) frv. 83/2002, SJS
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[18:04]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það má segja að inntak þessarar umræðu hafi gerbreyst áðan í andsvörum milli hæstv. ráðherra og hv. 19. þm. Reykv., Ástu Möller. Þá loksins boðaði ráðherra kannski megintilgang þessa frv. þegar hún útskýrði hvernig líta bæri á næstsíðustu mgr. 7. gr. frv. Þetta átti sér þann aðdraganda að hv. þm. Ásta Möller kom í ræðustól og lýsti því að ákveðin atriði í frv. kæmu við sitt einkavæðingarhjarta. Ég verð að játa að ég veit ekki hvernig svoleiðis hjarta lítur út, ég er bara með venjulegt hjarta, ekki svona einkavæðingarhjarta, og það tekur enga kippi í mér, hjartað, þó að ríkið eða hið opinbera hafi með höndum einhverja starfsemi fyrir hönd íbúanna í landinu. Það er ekki nokkur minnsta hætta á því að blóðið fari að renna öfugt í gegnum hjartað á mér þó að við veljum okkur það fyrirkomulag að láta opinberar stofnanir sjá um tiltekna hluti fyrir okkur sem hefur í aðalatriðum gefist okkur vel.

En það er ljóst að aðrir hafa aðrar skoðanir. Fyrir ýmsa er bara markmið í sjálfu sér, burt séð frá öllu öðru, að koma sem mestri starfsemi í hendur einkaaðila. Þá er í raun og veru ekki mikið að verða eftir þegar maður fer yfir það hvað mönnum dettur í hug að gæti verið ástæða til að einkavæða. Hv. þm. Ásta Möller hefur haldið ræður um mikilvægi þess að einkavæða duglega í heilbrigðisþjónustunni, ef ég veit rétt, og er sjálfri sér samkvæm í því. Þá er náttúrlega eðlilegt að hún vilji einkavæða líka í umferðaröryggismálum og umferðarmálum eins og kostur er.

Hæstv. ráðherra vísaði til þessarar næstsíðustu málsgreinar, 2. mgr. 7. gr., en þar segir, með leyfi forseta:

,,Umferðarstofnun er heimilt að fela öðrum framkvæmd verkefna sem henni tilheyra, samkvæmt reglum sem dómsmálaráðherra setur.`` --- Punktur.

Það er dálítið magnað að ganga svona frá hlutunum. Ég var búinn að fara í umsögn um 7. gr. á bls. 7 þar sem fjallað er um þetta, og maður skyldi ætla að ef markviss og einbeittur pólitískur ásetningur væri á bak við þessa setningu væru menn ekki að fela hann. Þá stæði skýrt, annaðhvort í greinargerð frv. eða í umsögn um 7. gr., hvað til stæði --- en svo er ekki. Í athugasemd við þessa nefndu 7. gr. þar sem hlutverk Umferðarstofnunar er tilgreint segir, með leyfi forseta:

,,Í grófum dráttum er lagt til að Umferðarstofnun taki við verkefnum sem Skráningarstofan hf. og Umferðarráð sinna nú. Upptalning verkefna er þó ekki jafnítarleg og nú er um verkefni Umferðarráðs í 112. gr. laganna. Rétt þykir að í lögum verði einungis helstu þættir starfseminnar tilgreindir, en nánari upptalning á verkefnum Umferðarstofnunar verði að finna í reglugerð.`` --- Gott og vel.

Maður skyldi ætla af þessari lögskýringu að þetta væru þau verkefni sem Umferðarstofnun ætti að hafa með höndum --- en svo er ekki. Þessi dæmalausa setning í 7. gr. frv. gerir það að verkum að Umferðarstofnun getur svo gott sem og í raun og veru alveg lagt sjálfa sig niður ef henni sýnist svo. Hún þyrfti ekki að vera til nema í orði kveðnu því að þetta er án nokkurra takmarkana eða undanþágna sett aftast í 7. gr. þar sem hlutverki stofnunarinnar er lýst og það er ekkert undan dregið. Umferðarstofnun er heimilt að fela öðrum framkvæmd verkefna sem henni tilheyra, bara allt saman. Það má einkavæða allt heila klabbið ef svo ber undir.

Hvað hefur þá upptalning af þessu tagi upp á sig? Hlutverk Umferðarstofnunar er að annast skráningu ökutækja og aðra umsýslu, annast ökupróf, veita leyfi, annast fræðslu og upplýsingamiðlun, annast skráningu umferðarslysa, annast rekstur á tölvu- og upplýsingakerfum o.s.frv. Þetta er allt saman nokkuð ítarlega sundurgreint en svo kemur bara setningin: Þetta er allt í plati --- því það má einkavæða þetta allt saman ef Umferðarstofnun sýnist svo samkvæmt reglum sem ráðherra þá setur. Það á að færa ráðherranum algjört vald til að einkavæða þessa starfsemi eins og hún leggur sig ef svo ber undir.

Þetta er auðvitað mjög sérkennilegt, herra forseti. Að nafninu til er þetta frv. um að stofna opinbera stofnun, ,,ríkisstofnun`` stendur í umsögn um 6. gr. frv. Þar segir: ,,Lagt er til að stofnuð verði sérstök ríkisstofnun er beri heitið Umferðarstofnun.`` Já, en svo er bara hægt að einkavæða starfsemina eins og hún leggur sig út um bakdyrnar. Þetta er sambærilegt ofstæki og kom inn á þing þegar setja átti í heilbrigðislögin eitt einfalt ákvæði sem ráðherrar gætu svo haft í höndunum til að einkavæða nánast heilbrigðisgeirann eins og þeim sýndist, og gott ef þeir áttu ekki bara að geta haft ríkisreksturinn eins og leir í höndum sínum á hverjum tíma út á einhver heimildarákvæði. Má ég biðja um betri stjórnsýslu en þetta, aðeins meiri festu í hlutina.

Við skulum þá fara í gegnum það og takast á um hvað ríkið á að hafa með höndum í þessum efnum, og hvað ekki. Ræðum það heiðarlega en förum ekki svona með málin. Þá er til lítils að setja lög. Alþingi liggur að nafninu til yfir því hvað þessi Umferðarstofnun eigi að gera. Það er sundurliðað í löngu máli en svo bara ræður ráðherra því eða kommissarinn í þessari stofnun. Þeir geta farið á kaffihús, hérna út á Hótel Borg, verðandi framkvæmdastjóri í þessari stofnun og ráðherra, einhver á komandi árum, og gert það sem þeim sýnist í þessum efnum, þess vegna ákveðið, í grófum dráttum talað, að leggja Umferðarstofnun niður, hún verði eingöngu til að nafninu til og feli öðrum aðilum öll verkefni sín enda glaðnaði mjög yfir hv. þm. Ástu Möller þegar hún hafði fengið þessar útskýringar frá hæstv. ráðherra, þarna væri einkavæðingarsjónarmiðunum borgið. Þarna er hægt að einkavæða og hagræða, sagði hæstv. ráðherra. Og þá er bara best að taka það upp á borðið, herra forseti.

Látum vera að menn hefðu séð þetta þannig fyrir sér í einhverjum praktískum þáttum eins og t.d. í j-liðnum, að annast rekstur á tölvu- og upplýsingakerfum. Látum vera að þann rekstur mætti bjóða út, og stofnunin þyrfti ekki endilega sjálf að annast það. En það er grundvallarmunur á því og þeirri stjórnsýslu og því öryggishlutverki sem þessari opinberu stofnun er ætlað, sem hefur verið hjá Umferðarráði og þá eftir atvikum hjá Skráningarstofunni. Væri þá ekki nær að þessi stofnun dreifði verkefnum í fjarvinnslu, stæði fyrir þeim í gegnum fjarvinnslu annars staðar í landinu heldur en að færa þetta allt saman á altari einkavæðingarinnar? Og hefur það gefist svo vel? Eru menn mjög stoltir sem hafa farið yfir --- eða kannski hafa menn ekki einu sinni haft fyrir því að kynna sér hvernig þjónustan hefur þróast, t.d. í sambandi við skoðanir á ökutækjum, skráningar þeirra og ýmislegt fleira? Veit hæstv. ráðherra hvernig er t.d. að þurfa að láta endurskoða vörubíl víða á landsbyggðinni? Það þarf að keyra mörg hundruð kílómetra með tugþúsunda króna kostnaði --- eins og gjaldskrárnar séu ekki nógu háar. Það er ekki lengur hægt að afskrá ökutæki og fá það skráð aftur til að losna við gjöld nema með höppum og glöppum af því að númerin þurfa öll að fara til Reykjavíkur. Það er meira og minna búið að leggja alla þjónustu á landsbyggðinni niður á þessu sviði. Menn muna kannski hvernig gjaldskráin fór upp úr öllu valdi á fyrstu árum einkavæðingar Bifreiðaskoðunar hf. Muna menn það? Fyrirtækið margfaldaði gjaldskrárnar á örfáum árum. Vissulega var verið að ráðast í fjárfestingar og byggja upp fína og dýra aðstöðu. Það skal ekki lastað að búnaður í landinu til skoðunar batnaði en það kostaði líka sitt. Rjúkandi hagnaður var af fyrirtækinu nánast á hverju ári þrátt fyrir grenjandi fjárfestingar. Svo dýrt var það. Þá sagði enginn múkk af því að það var búið að einkavæða. Ég er ansi hræddur um að það hefði heyrst í mönnum ef Bifreiðaeftirlit ríkisins sáluga hefði hegðað sér þannig. Það var að berjast við að halda uppi góðri þjónustu um allt land og menn þurftu ekki að keyra hálft landið á enda til að fá skoðun á þeim tíma. Nei, hún stóð til boða í hverju einasta byggðarlagi landsins á samræmdu verði sem tók til landsins alls. Núna er hluti landsmanna dæmdur í miklu lakari þjónustu og gríðarleg útgjöld vegna þess að hin einkavædda starfsemi tekur fyrst og fremst mið af hagsmununum þar sem markaðurinn er stærstur og lætur hinn hlutann mæta afgangi. Ég er ekki hrifinn, og ekki par hrifinn af einhverjum einkavæðingar\-ofstækishugmyndum sem læðast hér inn í þetta frv. (Forseti hringir.) --- Mátti ekki nefna þetta orð, herra forseti?

(Forseti (ÁSJ): Tíminn er búinn.)

Nú, er tíminn búinn? Það er bara svona, þá er hann búinn.