Almenn hegningarlög

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 19:39:50 (7192)

2002-04-08 19:39:50# 127. lþ. 114.29 fundur 678. mál: #A almenn hegningarlög# (öryggi í siglingum, kjarnakleyf efni o.fl.) frv. 70/2002, dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[19:39]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á almennum hegningarlögum. Með frv. eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á lögunum til að íslenska ríkið geti átt aðild að þremur alþjóðasamningum er varða hryðjuverk. Um er að ræða samning um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi í siglingum á sjó frá 10. mars 1988, bókun um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi botnfastra mannvirkja á landgrunninu frá 10. mars 1988 og samning um vörslu kjarnakleyfra efna frá 26. okt. 1979.

Hæstv. utanrrh. hefur lagt fyrir þingið till. til þál. um aðild að fjórum alþjóðasamningum en þrír þeirra samninga gáfu tilefni til breytinga á löggjöf og eru það þeir samningar sem frv. þetta lýtur að. Fjórði samningurinn, um merkingu plastsprengiefna til að unnt sé að bera kennsl á þau frá 1. mars 1991, kallaði ekki á lagabreytingar.

Aðdragandi þess að Ísland hyggst gerast aðili að samningum þessum er að í kjölfar hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin þann 11. sept. sl. hvatti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna þjóðir heims til að fullgilda þá alþjóðasamninga gegn hryðjuverkum sem þegar höfðu verið gerðir, og hrinda ákvæðum þeirra í framkvæmd.

Alls voru alþjóðasamningar sem féllu undir hryðjuverkasamninga 13 talsins. Ísland hafði þegar fullgilt meiri hluta þeirra og stjórnvöld settu það markmið að fullgilda þá sem eftir stóðu fyrir vorið 2002. Þann 8. mars 2002 heimilaði Alþingi fullgildingu á þeim tveimur samningum sem taldir voru mikilvægastir, samningi um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar og samningi um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi. Frv. sem gerðu viðeigandi lagabreytingar voru lögð fyrir Alþingi af því tilefni og hafa verið rædd á þinginu.

Þeir fjórir samningar sem eftir standa eru þeir samningar sem utanrrh. hefur nú lagt fyrir þingið.

Samningurinn um öryggi í siglingum á sjó og bókun við hann um öryggi botnfastra mannvirkja á landgrunninu kveða á um refsinæmi þess að ógna öryggi skipa á sjó og botnföstum mannvirkjum á landgrunninu.

Samningurinn um vörslu kjarnakleyfra efna kveður á um hvernig gæslu slíkra efna sem nota skal í friðsamlegum tilgangi skuli háttað á meðan slík efni eru flutt milli landa, og hins vegar til hvers konar ráðstafana aðildarríki skuli grípa vegna ólögmætra athafna varðandi vörslu og flutning á slíkum efnum.

Þær breytingar sem lagðar eru til í almennum hegningarlögum með 1. gr. frv. eru til að fullnægja skilyrðum samninganna um að ríki afli sér refsilögsögu eins og samningarnir kveða á um.

Breytingarnar í 2. gr. frv. eru vegna áskilnaðar samningsins um öryggi í siglingum og bókunar um öryggi botnfastra mannvirkja á landgrunninu en þar er þess krafist að ríki geri yfirtöku skips með ólögmætum hætti refsiverða. Í 2. mgr. 165. gr. laganna er nú þegar ákvæði sem tekur til ólögmætrar yfirtöku loftfars en ekki til skipa eða botnfastra mannvirkja. Því er lagt til að ákvæðið nái einnig til þessa.

Breytingarnar sem lagðar eru til í 3. gr. eru komnar til vegna þess að refsivert er samkvæmt bókuninni um öryggi botnfastra mannvirkja á landgrunninu að raska öryggi slíkra mannvirkja. Samkvæmt 168. gr. laganna er refsivert að ógna öryggi skipa, flugvéla og annarra farartækja en greinin tekur ekki til botnfastra mannvirkja á landgrunninu.

Þær breytingar sem gerðar eru með 4. gr. frv. eru vegna samningsins um vörslu kjarnakleyfra efna. Í 7. gr. samningsins er samningsríkjum m.a. gert að kveða á um refsinæmi þeirrar háttsemi að taka ólöglega við og hafa í vörslum sínum kjarnakleyf efni þannig að það stofni lífi manna í hættu. Til að taka af öll tvímæli um að íslensk hegningarlög samræmist 7. gr. samningsins er lagt til að nýju ákvæði, 169. gr. a, verði bætt við hegningarlögin.

Herra forseti. Ég hef í meginatriðum gert grein fyrir efni frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.