Stefnumótun um aukið umferðaröryggi

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 19:44:19 (7193)

2002-04-08 19:44:19# 127. lþ. 114.30 fundur 599. mál: #A stefnumótun um aukið umferðaröryggi# þál. 14/127, KLM
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[19:44]

Kristján L. Möller:

Hæstv. forseti. Nú er nokkuð umliðið síðan hæstv. dómsmrh. fylgdi úr hlaði þeirri till. til þál. um stefnumótun um aukið umferðaröryggi sem hér er til umræðu, og kynnti þá tillögu sem þar er. Út af fyrir sig get ég sagt að ég fagna að sjálfsögðu þessari tillögu og því sem þar kemur fram, sem m.a. kemur fram í þessu riti, Umferðaröryggisáætlun 2002--2012. Allt eru þetta hin bestu gögn og bestu tillögur sem hér eru lagðar til og fluttar, mikið af upplýsingum sem að gagni kunna að koma í þessu máli o.s.frv. En það er eitt atriði sem spilar náttúrlega aðalhlutverkið í umferðaröryggisáætlun og það eru auðvitað peningar, peningar til að fylgja þessari umferðaröryggisáætlun eftir.

Og það er rétt, herra forseti, að minnast á að á síðasta umferðarþingi, þann 1. des. árið 2000, var samþykkt einróma eftirfarandi ályktun sem ég ætla að lesa hér upp, með leyfi forseta:

[19:45]

,,Umferðarþing, haldið í Reykjavík 30. nóv. og 1. des. árið 2000, fagnar þeirri myndarlegu stefnumörkun dómsmálaráðherra að miða við 40% fækkun dauðaslysa og meiri háttar slysa í umferðinni á næstu tólf árum á Íslandi.

Umferðarþing bendir á að fullnægjandi umferðaröryggisáætlun verður að innihalda fjárhags- og framkvæmdaáætlun og tryggja verður að til hennar renni nægt fé úr opinberum sjóðum.

Umferðarþing lýsir vonbrigðum sínum yfir því að í fjárlögum fyrir árið 2001`` --- sem þá var verið að afgreiða á Alþingi --- ,,varð nánast ekkert vart við aukna fjármuni til þessarar baráttu. Umferðarþing skorar því á ríkisstjórn og Alþingi að lýsa því nú þegar yfir að væntanleg tólf ára áætlun muni uppfylla framangreind skilyrði.``

Herra forseti. Ég átti þess kost að sitja að mestu leyti á þessu umferðarþingi sem var mjög fróðlegt fyrir þá sem hafa áhuga á umferðaröryggismálum, og sú ályktun sem ég las upp er mjög mikilvæg og kannski aðalatriðið í því sem ég vildi gera hér að umtalsefni. Þessi ágæta áætlun sem hér hefur verið lögð fram, og stefnumörkun, er mjög góð en ég óttast að erfitt verði að framfylgja henni vegna þess að ekki fylgja með peningar. Og nú virðist, tæpu einu og hálfu ári eftir að þessi ályktun var samþykkt vegna tólf ára áætlunarinnar, sem áætlunin hér innihaldi ekki neina fjárhags- og framkvæmdaáætlun.

Þetta er mjög mikilvægt. Ég vitnaði áðan í umferðaráætlun sem Reykjavíkurborg hefur gert en með henni fylgdi framkvæmda- og fjárhagsáætlun sem er mjög merkilegt að skoða í plagginu Umferðaröryggisáætlun fyrir Reykjavík. Þar sagði m.a. í ávarpi borgarstjóra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, að Reykjavíkurborg hefði í upphafi þessa kjörtímabils ákveðið að gera umferðaröryggisáætlun sem hefði það að markmiði að fækka slysum í umferðinni í Reykjavík um 20% fram að aldamótum. Síðan er því lýst í ávarpinu hvernig að þessu skuli standa. Og sú framkvæmdaáætlun, herra forseti, sem birtist í þessu plaggi er auðvitað það sem maður saknar langmest að sjá ekki í þeirri umferðaröryggisáætlun sem hæstv. dómsmrh. flutti. Slík áætlun, samþykkt af Alþingi, mundi varða leiðina að því hvernig við viljum vinna að þessum málum. Þetta er eitthvað annað en bara orð á þessum pappírum og auðvitað höfum við séð fullt af svona áætlunum sem því miður hefur ekki verið hægt að fara eftir, fögur og góð markmið, vegna þess að peninga hefur skort.

Áætlun R-listans í Reykjavík um fækkun umferðarslysa um 20% fyrir árslok 2000 stóðst hins vegar fullkomlega, m.a. vegna þess að sú fjárhags- og framkvæmdaáætlun sem ég hef gert að umtalsefni fylgdi með. Enda er það svo, herra forseti, að alls staðar á Norðurlöndunum er verið að vinna þessa þætti í svipuðum takti og hér er lagt til en þar fylgja miklir peningar með. Danir eru t.d. nýbúnir að samþykkja vandaða áætlun til tólf ára þar sem umferðarslysum verður fækkað um 40% samkvæmt áætluninni, líkt og hér á að gera, en þeir gera líka ráð fyrir fjárveitingum úr opinberum sjóðum öll árin tólf. Hvorki meira né minna en 11 þús. millj. danskra kr. fara í þessi umferðaröryggismál en ekki t.d. í almenna vegagerð, þar er mikill munur á. Og þessar 11 þús. millj. eru ansi miklir peningar á tólf árum eða um 10 milljarðar ísl. kr. á ári. og ef við gefum okkur það sem ég held að sé rétt, að Danir séu 20 sinnum fleiri en við, ættum við samkvæmt þessu að verja 500 millj. á ári til umferðaröryggismála.

Ég vil því nota þetta tækifæri hér og spyrja hæstv. dómsmrh., sem fylgdi úr hlaði þessu merka plaggi, um fjármögnun á því og hvaða peningar fylgi hér með. Það er nefnilega þjóðhagslega mjög arðbært að gera þetta og það er það sem Danir hafa líka reiknað út vegna þess að þeir gera ráð fyrir að spara um 45 þús. millj. danskra kr. alls vegna færri óhappa og slysa á þessum tólf árum. Þetta eru miklir peningar, og auðvitað ber að hafa í huga að Danir eru töluvert fleiri en við. Engu að síður, ef mér skjátlast ekki við útreikninginn, væru þetta í kringum 500 millj. sem við ættum að leggja hér fram.

Herra forseti. Á þessum stutta tíma sem ég hef í fyrri ræðu minni vildi ég leggja áherslu á þessi atriði, spyrja út í þessa fjármögnunarleið og hvað eigi að gera. Með ályktun umferðarþings var birt viðtal við hæstv. dómsmrh. um hana, og þá stóð í fyrirsögn með þeirri grein, sem ég ætla ekki að séu orð hæstv. dómsmrh. heldur blaðamanns, að ekki sé tímabært að ræða fjárhagsáætlun á þessu stigi, á því stigi þegar umferðarþingið var að vinna þessa ályktun sem ég las upp. Ég hef því miður ekki tíma til að lesa upp allt það sem þar kemur fram. En ég ítreka spurningu til hæstv. dómsmrh. og ósk um að fá útlistanir á því hve miklir fjármunir muni fylgja með til að vinna að því göfuga markmiði sem boðað er í þessari þáltill. sem ég er hjartanlega sammála. Ég tek undir öll fögru og góðu markmiðin sem eru í þessari umferðaröryggisáætlun. Hún er líka mjög göfug og góð, og allt gott sem er þar í, e.t.v. spurning um hvað vantar eins og gengur og gerist. Þetta verður að mínu mati, herra forseti, alls ekki framkvæmt öðruvísi en að töluverðir fjármunir fylgi með.